Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Búdapest
Nú eftir rúman klukkutíma mætir íslenska karlalandsliðið því ísraelska í undanúrslitum umspils um sæti á EM. Byrjunarlið beggja liða hafa verið opinberuð.
Meira
Byrjunarlið Íslands opinberað – Ýmislegt áhugavert
Athygli veikur að Oscar Gloukh, miðjumaður Salzburg, er ekki í liðinu en hann er einn besti leikmaður Ísraela.
Ísraelskir blaðamenn hér á Szusza Ferenc leikvanginum í Búdapest eru steinhissa á tíðindunum. Einnig má sjá það á ísraelskum fjölmiðlum. Ekki virðist sem svo að um meiðsli eða þess háttar sé að ræða sem stendur.
Alon Hazan, þjálfari Ísraela, er undir pressu og er ljóst að ákvörðun hans um að hafa Gloukh ekki með mun ekki reynast vinsæl ef illa fer í kvöld.
Sigurvegarinn úr leik kvöldsins mætir Bosníu eða Úkraínu í úrslitaleik um sæti á EM. Þau eigast við á sama tíma.