Baldur Þórhallsson, forsetaframbjóðandi, safnaði meðmælendum með framboði sínu á 104 mínútum, og um klukkustund síðar hafði hámarksfjölda verið náð sem að öllum líkindum er nýtt Íslandsmet í meðmælum. Hljóðið er gott í herbúðum frambjóðandans en stuðningsmenn skynja mikinn meðbyr með framboðinu.
Áður vakti sitjandi forseti, Guðni Th. Jóhannesson, athygli árið 2020 þegar hann safnaði hámarks meðmælendum á aðeins fjórum klukkustundum, en það var jafnframt fyrsta forsetakjörið þar sem frambjóðendur gátu safnað meðmælum rafrænt. Ólíkt kosningunum í ár gerðu aðeins sex atrennu að embættinu, en af þeim fóru tveir fram, tveir hættu við og tveir skiluðu ekki meðmælum.
Að þessu sinni eru 47 meðmælasafnanir í gangi til embættisins, en til nokkurra þeirra var þó stofnað fyrir mistök. Enginn annar frambjóðandi í ár hefur tilkynnt að lágmarks meðmælum hafi verið náð.
Ekki liggur endanlega fyrir hversu lengi Guðni Th. var árið 2020 að safna lágmarksfjölda meðmælenda. Einhverjum sögum fór að því að það hafi tekið um klukkustund, en var það haft eftir Facebook-færslu sem DV hefur ekki tekist að grafa upp. Hins vegar liggur fyrir að hámarkinu náði Guðni á um fjórum klukkustundum, og það sem sitjandi forseti. Baldur sló það met um um það bil klukkustund og mætti því vel halda því fram að um nýtt Íslandsmet sé að ræða.
Blaðamaður sló á þráðinn hjá kosningahóp Baldurs og Felix eftir þessa vel heppnuðu meðmælendasöfnun, til svara var stuðningsmaðurinn Heimir Hannesson, sem telur Íslandsmet nokkuð vel af sér vikið á fyrsta degi baráttunnar, en hann sé þó tæpast hlutlaus.
„Já, þú segir mér fréttir af Íslandsmeti. Það þykir mér reyndar alveg stórmerkilegt að Baldri hafi tekist það á fyrsta degi kosningabaráttu hans. Auðvitað er ég ekki óháður, fjarri því, en sem áhugamaður um stjórnmál finnst mér það alveg stórmerkilegt.“
Heimir segir að kosningahóp Baldurs hafi bæði komið þetta góða gengi skemmtilega óvart, en á sama tíma hafi það verið viðbúið.
„Já og nei. Það fer ekki framhjá neinum að það er mikill áhugi á framboðinu og þeir eiga sér stóran og öflugan hóp stuðningsfólks. Hins vegar hafði ég ekkert hugsað út í það að Baldur gæti sett Íslandsmet. Það var rosalega gaman að sjá.“
Blm: Svo þetta var blússandi lukka?
„Ég hef reyndar haldið því fram lengi að þú getir verið óheppinn í pólitík. En aldrei heppinn. Þarna sýnist mér Baldur og Felix einfaldlega vera að njóta þess að hafa undirbúið málefnalegan grundvöll þessa framboðs hans vel með því að raunverulega hlusta, en ekki bara segjast ætla að gera það. Það tók sinn tíma og við stuðningsmenn þurftum aðeins að bíða, en það er augljóslega að skila sér“