fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Leki frá ísskáp skemmdi parket en leigusali situr uppi með tjónið því hann fór ekki að lögum

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 21. mars 2024 13:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leigjandi þarf ekki að greiða fyrrum leigusala sínum skaðabætur út af ófullnægjandi þrifum og skemmdum á parketi samkvæmt úrskurði kærunefndar húsamála sem féll þann 12. mars. Úrskurðurinn sýnir mikilvægi þess að gætt sé að húsaleigulögum þegar leiguhúsnæði er skilað. Leigusalinn í máli þessu fór ekki eftir lögunum og situr því sjálfur uppi með tjón sitt.

Leigjandinn hafði haft húsnæðið á leigu í fimm ár. Greindi leigjandi frá því að þegar leigutíma lauk hafi komið í ljós skemmdir í parketi í eldhúsi eignarinnar. Líklega hafi ísskápur lekið án þess að leigjandi tæki eftir því. Sökum þessa féllst leigjandi á að tryggingu sem hann greiddi við upphaf leigutíma, 480 þúsund krónum, yrði ráðstafað í að bæta tjónið. Leigjandi hafi svo þrifið íbúðina og skilað lyklunum. Tveimur vikum síðar hafi leigusali krafist skaðabóta upp á 582.500 til viðbótar við trygginguna. Skipta þyrfti um parket á allri íbúðinni og væri kostnaður vegna þess um milljón og auk þess hafi þrifum verið ábótavant og leigusali því þurft að kaupa þrif sem kostuðu 50 þúsund krónur.

Fyrir kærunefnd greindi leigusali frá því að við lok leigutíma hafi komið í ljós miklar skemmdir á parketi við eldhúsinnréttingu, parketlistum, undirlagi, sökkli eldhúsinnréttingar og á vegg fyrir aftan ísskáp. Ljóst væri að ísskápur hafi lekið í langan tíma og náð að skemma mikið út frá sér. Hefði leigjandi greint strax frá lekanum hefði tjónið orðið mun minna. Parketið sem skemmdist sé ekki lengur í sölu og því ekki hægt að skipta bara um þann hluta sem skemmdist, heldur þarf að skipta um parketið eins og það leggur sig. Íbúðin hafi þar að auki vægast sagt verið illa þrifin og leigusali þurft að borga 50 þúsund krónur til að koma eigninni í sæmilegt horf.

Leigjandi gekkst við því að hafa mögulega yfirsést að þrífa staði eins og ofan á baðherbergisinnréttingu, ofan á gardínustöng og ofan á viftu í eldhúsi. Hins vegar hafi þrif vissulega átt sér stað. Leigjandi hafi leitað í byggingavöruverslun eftir áliti á skemmdum í parketi og fengið þau svör þar að óþarfi væri að skipta um allt heldur nægði að skipta út skemmdunum.

Kærunefndin rakti að samkvæmt lögum ber leigjendum að skila húsnæði í sama ástandi og þeir tóku við því. Hafi skemmdir orðið á leigutíma, sem ekki teljast stafa af atvikum sem eru leigjanda óviðkomandi eða af eðlilegu sliti á leigutíma, þá beri leigjandi skaðabótaábyrgð. Hins vegar þyrfti í slíkum tilvikum að gæta að ákvæðum laga. Hér hafi leigusali einhliða látið meta tjónið og einhliða tekið út þrif. Leigjanda var ekki gefinn kostur á að bæta úr þrifum og ekki var fenginn óháður aðili til að taka eignina út líkt og húsaleigulög áskilja.

Þar með gæti leigusalinn ekki krafið leigjanda um skaðabætur. Þar sem leigjandi hafði samþykkt að tryggingu yrði ráðstafað til að bæta tjón á parketi, þá þyrfti það bara að duga.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Ari Hermóður sakfelldur fyrir fjárdrátt

Ari Hermóður sakfelldur fyrir fjárdrátt
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ætluðu að slaka á í Sky Lagoon en annað kom á daginn – „Vá! Þetta er brjálað“

Ætluðu að slaka á í Sky Lagoon en annað kom á daginn – „Vá! Þetta er brjálað“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus
Fréttir
Í gær

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks
Fréttir
Í gær

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu