Guðmundur Benediktsson sem lýsa mun leik Ísraels og Íslands á Stöð2 Sport í kvöld er ósáttur með að sjá ekki fleiri Íslendinga mæta á leikinn í kvöld þar sem mikið er undir.
Búist er við um tæplega 100 Íslendingum en stuðningsmenn Ísrael verða í kringum 600 en leikið er í Ungverjalandi.
Liðið sem vinnur þennan leik er komið í úrslitaleik um laust sæti á EM. Gummi Ben hefði viljað sjá hópferð frá Íslandi.
„Ég er hins vegar aðeins svekktur að KSÍ og Icelandair sem er samstarfsaðili sambandsins sé ekki með ferð hingað, það er allt undir um að komast í úrslitaleik,“ segir Gummi Ben í þætti á Vísir.is í dag.
Hann segir að það hefði verið hægt að kveikja neista í fólki. „Ég er vonsvikinn að hafa ekkert séð um það í aðdraganda þessa leiks þar sem er verið að kynda undir það að við séum að spila einn stærsta leikinn í mörg ár.“
Stefán Árni Pálsson tók undir þetta. „Ísrael seldi 600 miða, það hefði verið auðvelt fyrir okkur að vera á heimavelli í kvöld,“ sagði Stefán.