Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Búdapest
Það hefur lítið gengið upp hjá Blackburn í ensku B-deildinni undanfarið. Með liðinu spilar íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson og hann ræddi við 433.is í gær.
Blackburn hefur ekki unnið í átta leikjum í röð, þar af fóru sex jafntefli. Liðið hefur sogast niður í fallbaráttu og er nú aðeins 3 stigum fyrir ofan fallsvæðið.
„Það er svo stutt á milli í þessari deild. Ef þú tapar nokkrum leikjum ertu fljótur að fara niður. Sama gildir ef þú vinnir nokkra leiki, þá ertu fljótur að fara upp. Það eru átta leikir eftir svo við þurfum aðeins að spýta í lófana,“ sagði Arnór á hóteli íslenska landsliðsins hér í Búdapest í gær.
Enska B-deildin er ansi strembin deild.
„Þetta er alvöru. Maður þarf að vera upp á sitt besta bæði líkamlega og andlega alla daga. Þetta eru 46 leikir og ein erfiðasta deild í heimi að spila í,“ sagði Arnór sem er ansi sáttur í Blackburn.
„Mér líður mjög vel þarna. Það er góð liðsheild og strákarnir í liðinu tóku mér fagnandi frá fyrsta degi.“
Ítarlegra viðtal við Arnór, þar sem landsleikur kvöldsins gegn Ísrael er einnig tekinn fyrir, er í spilaranum.