fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Vildi fá greitt fyrir að koma í veg fyrir að húsið brynni – Ásakanir ganga á víxl í dramatískum samskiptum leigjanda og leigusala

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 20. mars 2024 17:00

Kærunefnd húsamála er til húsa að Sölvhólsgötu 7 í Reykjavík

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd húsamála hefur kveðið upp úrskurð sinn í máli sem leigjandi beindi til nefndarinnar vegna deilna við leigusala sinn um endurgreiðslu leigu, greiðslu fyrir þrif á hinu leigða húsnæði og greiðslu fyrir að koma í veg fyrir að eldur breiddist þar út. Úrskurðaði nefndin leigusalanum í vil en af úrskurðinum má dæma hefur talsvert gengið á í samskiptum leigjandans og leigusalans.

Í honum kemur fram að deiluaðilar gerðu leigusamning um leigu leigjandans, sem er kona, á herbergi í húsi leigusalans, sem einnig er kona, en ekki kemur fram í hvaða sveitarfélagi húsið er. Fram komi í leigusamningnum að um langtímaleigu sé að ræða frá 1. apríl 2023 og að leigutími skuli að minnsta kosti vera eitt ár. Ágreiningur hafi verið uppi um kröfu leigjandans um endurgreiðslu á hluta leigu vegna júlímánaðar. Einnig gerði leigjandinn kröfu um að leigusalanum yrði gert að greiða henni 20.450 krónur vegna þrifa hennar á húsinu í fjarveru leigusalans sem og 5.000 krónur fyrir að hafa komið í veg fyrir að eldur breiddist út í því.

Ýmsu ábótavant í herberginu – Þurfti að fara í bakarí til að fara á netið

Í lýsingum á sjónarmiðum leigjandans kemur fram að ýmsu hafi verið ábótavant í herberginu sem hún leigði. Hún sagði ofn í herberginu ekki hafa virkað við upphaf leigutíma. Einnig hafi ljós verið biluð og fataskápur brotinn. Herbergið hafi verið óhreint sem og húsið allt. Engin gluggatjöld hafi verið til staðar og þá hafi þurft að lagfæra gardínur.

Leigjandinn sagðist hafa þrifið húsið í apríl og maí 2023 að beiðni leigusalans og fóðrað ketti hennar. Þá hafi Internetið stundum ekki virkað og hún því þurft að fara í bakarí fyrir netfundi, sem hafi leitt til fjárútláta. Leigusalinn hafi hótað henni í tvö skipti og hún hafi kært það til lögreglu. Hún hafi greitt leigu fyrir júlí 2023 og leyft, með samþykki leigusalans, syni annars leigjanda í húsinu að nota herbergið síðustu tvær vikur þess mánaðar á meðan hún hafi verið í fríi. Engu að síður hafi leigusalinn krafið hana um leigu, fyrir þessar tvær vikur og þannig fengið greidda leigu frá þeim báðum fyrir hluta þess mánaðar.

Vinur leigjandans hafi átt að redda verktaka – Hafi brugðist illa við athugasemdum um mikið niðurhal

Þegar kemur að sjónarmiðum leigusalans segir í úrskurðinum að hún hafi leigt út sex herbergi í húsinu með sameiginlegu aðgengi að stofu, eldhúsum, baðherbergjum, þvottahúsi og interneti. Vinur leigjandans hafi skoðað herbergið í nokkur skipti og talið það henta henni. Þá hafi leigjandinn skoðað herbergið og aðstöðuna rafrænt. Umræddur vinur leigjandans hafi ætlað að hjálpa henni að koma sér fyrir og yrði þörf á lagfæringum hafi hann ætlað að hafa samband við verktaka sem leigusalinn kæmi til með að greiða fyrir. Leigusalinn fullyrðir að orðið hafi verið við beiðnum leigjandans um lagfæringar á þeim atriðum sem hún hafi nefnt í kærunni til nefndarinnar.

Leigusalinn segir að öllum leigjendum hafi borið að þrífa húsið og þar sem leigjandinn hafi notað sameiginlegu rýmin hafi hún þurft að taka til eftir sig. Þegar kemur að ketti leigusalans þá hafi hún látið vita fyrirfram að kötturinn byggi í húsinu og hún hafi beðið alla leigjendur um að fóðra hann en það hafi þó ekki verið á ábyrgð leigjandans.

Hvað varði kvörtun leigjandans um lélegt netsamband í húsinu þá segir leigusalinn að við athugun á lélegu sambandi frá ljósleiðara hafi komið í ljós að töluvert álag hafi verið á honum vegna mikils niðurhals leigjandans. Leigjandinn hafi brugðist illa við þegar leigusalinn hafi ætlað að ræða þetta við hana. Leigjandinn hafi í kjölfarið hringt á lögregluna sem hafi neitað að koma á staðinn. Í lok júnímánaðar hafi leigjandinn upplýst að hún væri að fara í frí frá miðjum júlí til loka ágúst. Hún hafi greitt leigu vegna júlí og hafi sjálf ætlað að leigja herbergið til annars einstaklings en framleiga hafi verið ólögleg án vitneskju leiguslans.

Þrátt fyrir allt þetta segist leigusalinn hafa ákveðið að halda leigusamningnum, en skyndilega hafi leigjandinn flutt út fyrirvaralaust.

Leigusalinn hafnaði öllum kröfum um hvers kyns bætur.

Hafi komið í veg fyrir eldsvoða

Í viðbótar athugasemdum leigjandans kemur fram að leigusalinn hafi ekki gert athugasemdir við að vinir leigjenda í húsinu fengju að nýta herbergin með þeim.

Í þessum athugasemdum ítrekaði leigjandinn þau orð sín að leigusalinn hafi leigt öðrum aðila herbergið í þessar tvær vikur í júlí en krafið bæði þann aðila og hana sjálfa um leigu fyrir það tímabil.

Einnig bætti leigjandinn við þeim upplýsingum að hún hafi bjargað húsnæðinu frá eldsvoða. Eldur hafi kviknað í húsinu og enginn verið á efri hæðum hússins nema hún. Leigjendur hafi verið í kjallaranum og hún gert þeim viðvart um eldinn. Leigusalinn hafi aldrei þakkað henni fyrir þetta en hún telji að hún eigi rétt á bótum fyrir að hafa komið í veg fyrir útbreiðslu elds.

Tókst ekki að sanna mál sitt

Í niðurstöðu sinni segir kærunefnd húsamála að hún hafi óskað eftir því að leigjandinn legði fram einhver gögn til að styðja þá fullyrðingu að leigusalinn hafi fengið greidda leigu frá henni og öðrum aðila fyrir umræddar tvær vikur í júlí síðastliðnum.

Nefndinni bárust þá rafræn samskipti leigandans við annan leigjanda í húsinu þar sem hún tilkynnir að hún sé stödd erlendis og að herbergið sé opið. Upplýsir viðtakandinn þá að leigusalinn hefði krafið þann einstakling sem leigjandinn hafi sagt að hafi ætlað að dvelja í herberginu um leigu og svaraði leigjandinn því þá til að leiga hafi þegar verið greidd út júlímánuð.

Hins vegar er það niðurstaða nefndarinnar að þrátt fyrir þessi samskipti nægi þau ekki til sönnunar á því að leiga hafi verið tvígreidd enda hafi leigusalinn hafnað því að þetta hafi orðið raunin og téður einstaklingur leigt annað herbergi í húsinu.

Kröfu leigjandans um endurgreiðslu á 52.254 krónum vegna leigu fyrir 16.-31. júlí 2023 var því hafnað. Kröfum hennar um bætur vegna þrifa á húsnæðinu og að hafa komið í veg fyrir að eldur breiddist út var vísað frá nefndinni þar sem kröfurnar vörðuðu ekki framkvæmd leigusamnings og þóttu því ekki falla undir valdsvið nefndarinnar.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti