Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Búdapest
„Ég get ekki beðið. Þetta er stór leikur og ég held að allir átti sig á því,“ segir Arnór Sigurðsson landsliðsmaður um komandi leik gegn Ísrael á morgun í umspili um sæti á EM.
„Við þurfum að hafa fulla trú, annað væri bara skrýtið. Við höfum sýnt það að við erum með gott fótboltalið og við höfum spilað við þetta lið áður. Ég er bara bjartsýnn.“
Undir á morgun er miði í hreinan úrslitaleik um sæti á EM.
„Það er mikið undir og þá kannski verður þetta lokað til að byrja með. En svo þurfum við nýta okkar styrkleika og hæfileika, reyna að halda aðeins í boltann og reyna að opna þá,“ segir Arnór.
Arnór segir blönduna í íslenska liðinu mjög góða eins og er eftir hraðar breytingar undanfarin ár.
„Síðustu tvö ár hefur þetta gerst hraðar en menn bjuggust við. Mér finnst blandan mjög góð í dag. Allir geta talað við alla og bondað við alla. Maður finnur það að með hverju verkefninu sem líður förum við að þekkja hvorn annan betur, utan og innan vallar.“
Ítarlegra viðtal við Arnór má nálgast í spilaranum.