Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, og Felix Bergsson, eiginmaður hans, boðuðu til fundar núna kl. 12 í Bæjarbíói með þeim hópi fólks sem hvatt hefur Baldur til að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands, meðal annars í Facebook-hópnum: Baldur og Felix – alla leið. Meðlimir hópsins telja nú rúmlega 18 þúsund manns.
Á fundinum sem einnig var í beinu streymi greindi Baldur frá því að hann býður sig fram til embættis forseta Íslands.
Felix hóf fundinn og þakkaði gestum fyrir að mæta. Segir hann að hann og vinur hans, Gunnar Helgason, sem tók á móti gestum hafi farið um landið í 30 ár. Síðustu þrjú ár hafi þeir farið í skóla víðs vegar um land og hitt æsku landsins og haldið fyrirlestra um hvernig eigi að skrifa bækur og um mismunandi fjölskyldur og að mikilvægt sé að virða fjölskyldur annarra.
Felix segir að hann fái alltaf fyrst spurninguna um hvað hann sé gamall og næsta sé hvað hann og Baldur hafi verið lengi saman, svarið sé 28 ára og það séu bestu 28 ára Felix.
Baldur kom síðan á svið. „Ég verð að viðurkenna að ég hef verið mjög feiminn gagnvart þessu verkefni, kannski er það sveitastrákurinn í mér. Við Felix höfum heldur ekki séð okkur í þessu verkefni,“ sagði Baldur. Segist hann ekki hafa vitað hvaðan á hann stóð veðrið þegar hann sá viðbrögðin við stuðningsmannahópnum sem Gunnar stofnaði. „Hvað getum við sagt, við erum bara orðlausir.“
„Við ætlum að svara kallinu hátt og skýrt og taka slaginn.“
Forsetakosningar fara fram 1. júní þegar sjöundi forseti lýðveldisins verður kjörinn.
Ljósmyndari DV var í Bæjarbíói og fangaði stemninguna.