Á forsíðu blaðsins er greint frá óvenjulegu máli sem varðar einstakling sem ánafnaði samtökunum allar eigur sínar, 130 milljónir króna. Bróðir mannsins reyndi að fá erfðaskrána ógilta en án árangurs og hefur Hæstiréttur hafnað beiðni hans um kæruleyfi á úrskurði Landsréttar.
Forsaga málsins er sú að maðurinn, sem var ókvæntur og barnlaus, gerði erfðaskrá í viðurvist lögbókanda árið 2007. Þar kom fram að hann vildi ánafna SOS Barnaþorpum allar eigur sínar, þar á meðal húseign sem hann átti til helminga á móti móður sinni.
Þegar móðir hans lést keypti maðurinn hlut hennar og seldi svo húsið áður en hann keypti sér aðra íbúð. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að í umræddri erfðaskrá hafi gamla húsið verið tiltekið en ekki nýja íbúðin og um það snerist málið fyrir dómi.
Eftir að maðurinn lést var erfðaskráin í umsjá sýslumanns sem afhenti hana bróður hins látna. Var það ekki fyrr en skiptastjóri tók hana fyrir að SOS Barnaþorp fengu vitneskju um málið og fór málið fyrir héraðsdóm á síðasta ári þar sem bróðirinn gerði tilraun til að sækja sinn rétt.
Ragnar segir við Morgunblaðið að þetta sé stærsta dánargjöf í sögu samtakanna. Málaferlin sýni mikilvægi þess að ganga vel frá erfðaskrám svo ekki komi til kostnaðarsamra réttarhalda. Segir Ragnar að skjólstæðingar samtakanna, fátæk börn, muni njóta gjafarinnar.