Dönsk amma var nýlega dæmd til að greiða sem svarar til 5 milljóna íslenskra króna fyrri að hafa ekki fylgst nægilega vel með barnabarni sínu. Þetta kemur fram í fréttabréfi Faglige Seniorer.
Amman tók fjögurra ára barnabarn sitt, stúlku, með til að horfa á keppni í Ironman. Stúlkan hljóp þá í veg fyrir einn keppandann, sem kom hjólandi, sem datt af hjólinu og viðbeinsbrotnaði og fékk gat á lunga. Hann gat ekki sótt vinnu í töluverðan tíma á eftir.
Eystri Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að því fylgi víðtæk ábyrgð að líta eftir litlu barni. Vitni sögðu að stúlkan hefði hlaupið ein yfir veginn nokkrum sinnum áður en slysið átti sér stað. Eitt vitni sagði að engin hafi haldið í stúlkuna þegar slysið átti sér stað.
Þetta gerðist þegar keppt var í Ironman í Kaupmannahöfn sumarið 2017 en það var fyrst nýlega sem dómur féll í málinu.