Niðurstöður nýrrar rannsóknar ástralskra vísindamanna benda til að faraldurinn hafi mjög líklega átt sér „ónáttúrleg“ upptök frekar en „náttúruleg“.
Vísindamennirnir notuðu vel þekkt áhættugreiningarlíkan, sem heitir Grunow-Finke, til að búa til skala yfir hversu líklegt væri að faraldurinn hefði hafist af ákveðnum orsökum.
Niðurstöður áhættumatsins benda til þess að upptök faraldursins hafi verið „ónáttúruleg“ þar sem fyrstu smitin áttu sér stað nærri rannsóknarstofu þar sem kórónuveirur eru rannsakaðar. Þetta er talin ein af sterkustu vísbendingunum um uppruna faraldursins að því er segir í umfjöllun Metro.
Í rannsókninni er bent á að fyrstu tilfelli COVID-19 hafi komið upp í Wuhan í Kína þann 30. desember 2019, öll mjög nærri Wuhan Institute of Virology og Wuhan Center for Disease Control and Prevention.
Þar hafa verið gerðar tilraunir með kórónuveirur í leðurblökum frá 2010. Ein þeirra er 96,1% lík SARS-CoV-2. Einnig var verið að rannsaka kórónuveirur í annarri rannsóknarstöðinni tæpum mánuði áður en faraldurinn braust út.
Vísindamennirnir benda einnig á að engar sannanir hafi komið fram um að veiran hafi borist úr dýrum í fólk. Þeir vekja einnig athygli á því að í september 2019 hafi kínverski herinn tekið við stjórn annarrar rannsóknarstofunnar úr höndum almennra borgara. Einnig hafi verktaki verið ráðinn til að sinna lagfæringum á loftræstikerfi rannsóknarstofunnar. Þetta þykir dularfullt og gæti tengst því að veiran hafi síðan sloppið út.