Karl Bretakonungur lifir. Þetta þurfti Buckingham-höll að staðfesta í dag eftir að fréttir voru fluttar af meintu andláti konungsins í Rússlandi.
Buckingham-höll segir í yfirlýsingu til rússneska miðilsins TASS: Það er okkur ánægja að staðfesta að konungurinn er enn að sinna opinberum og persónulegum verkefnum.
Til að hrekja sögusagnirnar enn frekar birtist mynd af Karli á samfélagsmiðlum konungsfjölskyldunnar þar sem hann sést hitta uppgjafahermenn úr Kóreu-stríðinu í dag. Svona fyrir þá sem ekki voru nægilega sannfærðir.
Aðeins er um mánuður síðan Karl greindist með krabbamein eftir að hann gekkst undir aðgerð vegna stækkunar í blöðruháls. Ekki hefur verið greint frá því hvers konar krabbamein konungurinn glímir við en það virðist ekki koma í veg fyrir að hann sinni konunglegum skyldum sínum. Hann segist þakklátur læknum sínum fyrir að hafa gripið inn með hraði og þakkar sínu sæla fyrir aðgerðina því annars hefði krabbameinið líklega ekki fundist fyrr en það væri um seinan. Karl mun vera jákvæður fyrir framhaldinu og hafa fulla trú á því að hann nái heilsu aftur.
Hann fagnaði fyrir skömmu 75ára afmæli sínu, en hann tók við bresku krúnunni eftir andlát móður sinnar, Elísabetar Bretlandsdrottningu, sem lést í september árið 2022.