Ummælin snúa að Alberti Guðmundssyni landsliðsmanni. Hareide mátti velja Albert á ný þar sem mál gegn honum var fellt niður. Konan sem kærði Albert fyrir kynferðisbrot hafði rétt á að áfrýja niðurstöðunni og á föstudag var Hareide spurður út í þennan möguleika.
„Það væri synd fyrir Ísland og Albert,“ sagði Hareide á föstudag.
Konan hefur nú áfrýjað og lögmaður hennar, Eva Bryndís Helgadóttir, gagnrýndi Hareide harðlega fyrir ummælin og sagði þau verulega ósmekkleg og í raun siðferðislega ámæliverð. Hann væri að egna þjóðina gegn umbjóðenda hennar sem væri að fara lögformlegar leiðir til að ná fram réttlæti vegna misbeitingar sem hún varð fyrir.
„Varðandi ummæli sem voru höfð eftir mér á blaðamannafundi síðastliðinn föstudag, varðandi reglur um val á leikmönnum í íslenska landsliðið, þá vil ég gjarnan skýra að ég átti aðeins við að sem knattspyrnuþjálfari vil ég auðvitað geta valið bestu leikmennina hverju sinni. Það hefur ekki alltaf verið hægt. Þá vil ég líka nefna að ég var alveg skýr á blaðamannafundinum með það að reglurnar eru eins og þær eru, og að ég myndi virða þær reglur. Ég biðst afsökunar á að hafa valdið misskilningi varðandi þetta, enda var það alls ekki ætlun mín að særa eða móðga neinn,“ segir í yfirlýsingu Hareide.