Leikkonan Sharon Stone afhjúpaði loksins á dögunum hvaða kvikmyndaframleiðandi það var sem sagði henni að sofa hjá meðleikara sínum, Billy Baldwin, svo tengingin á milli þeirra væri „sterkari á skjánum“ í spennutryllinum Sliver sem var tekin upp árið 1993. Málið hefur nú undið töluvert upp á sig en nú hefur leikarinn Brad Pitt flækst inn í málið.
Stone sagði að framleiðandinn Robert Evans hafi lagt að henni að sænga hjá Baldwin við töku myndarinnar. Þannig myndi Baldwin standa sig betur, og það væri gott fyrir alla. Þessi fullyrðing Stone vakti gífurlega athygli og mikið umtal. Fór svo að Baldwin sá sig knúinn til að bregðast við. Hann skrifaði á samfélagsmiðlum:
„Botna ekki í því hvers vegna Sharon Stone er enn að tala um mig þetta mörgum árum síðar. Er hún enn skotin í mér, eða er hún enn skúffuð því ég hafnaði henni?“
Baldwin segir engan hafa þvingað Stone til að reyna við hann. Það þurfti ekki enda hafi Stone verið ástfangin af honum og staðráðin í að láta hann falla fyrir sér.
„Ég er með svo mikinn skít um hana að henni myndi svima ef hún vissi, en ég hef haldið mig á mottunni,“ skrifar Baldwin sem segist geta skrifað bók um alla afbrigðilegu og sláandi hlutina sem hann veit um leikkonuna.
Nú hefur leikstjóri myndarinnar, Phillip Noyce, blandað sér í málið. Hann sagði við Mail on Sunday:
„Þessi tvö voru ekki lukkuleg með að leika móti hvoru öðru. Sharon vildi alltaf fá Brad Pitt sem mótleikara, svo hún var verulega vonsvikin að enda með Baldwin. Ég held hún hafi virkilega séð eftir því að hafa tekið hlutverkið að sér. Hún var engan veginn ánægð með myndina.“
Noyce segir að það hafi mikill fjandskapur verið milli aðalleikaranna tveggja enda hafi Stone lítið gert til að fela andstyggð sína á Baldwin.