fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Fokreiður Einar hótaði að múlbinda Kolbrúnu á fundi borgarstjórnar í dag – „Við þurfum að grípa inn í með einhverjum hætti“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 19. mars 2024 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Segja má að það hafi fokið í nýjan borgarstjóra Reykjavíkur á borgarstjórnarfundi fyrr í dag. Þar sakaði hann borgarfulltrúa Flokks fólksins um að leggja heilt svið borgarinnar í einelti og að tími væri kominn til að stöðva þá framgöngu. 

Þurfa að borga brúsann

Til stendur að breyta lögum um opinber skjalasöfn, en drög að frumvarpi voru kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda í febrúar og lauk samráði þann 7. mars. Fyrirhugaðar breytingar eiga að skýra ákvæði laga um gjaldskrá og gjaldtöku opinberra skjalasafna, þá einkum gjöld sem Þjóðskjalasafn innheimtir af sveitarfélögum sem reka ekki héraðsskjalasafn. Bæði Kópavogsbær og Reykjavíkurborg hafa ákveðið að leggja niður skjalasöfn sín og færa verkefni þeirra yfir til Þjóðskjalasafns, en sökum þessa stendur til að bæta gjaldtökuheimildum við lögin svo ríkið geti rukkað fyrir að taka að sér þessi verkefni fyrir sveitarfélögin.

Sem dæmi má nefna að í einu ákvæði frumvarpsdraga er fjallað um heimild Þjóðskjalasafns til að innheimta gjald af sveitarfélögum vegna yfirtöku á hlutverki héraðsskjalasafns þegar slíkt er lagt niður, svo sem vegna aukins starfsmannakostnaðar.

Forsendur mögulega brostnar

Sökum þessa lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, fram tillögu á fundi borgarstjórnar í dag um að borgin afturkalli ákvörðun sína um að leggja Borgarskjalasafn niður. Sagði Kolbrún í ræðu sinni að ljóst væri að forsendur niðurlagningar, sparnaður, væri nú brostinn þar sem fyrir liggi að borgin muni bera meiri kostnað af flutningi verkefna til Þjóðskjalasafns, en lagt var út með. Eins gagnrýndi Kolbrún hvernig ákvörðunin var tekin á sínum tíma, en svo virðist sem að pöntuð hafi verið niðurstaða frá fyrirtækinu KPMG sem hafi ritað skýrslu þar sem vegið var að starfsheiðri borgarskjalavarðar og lítið gert úr verkefnum Borgarskjalasafns.

Fleiri úr minnihlutanum tóku til máls í umræðunni. Varaborgarfulltrúi Vinstri Grænna, Stefán Pálsson, lagði fram tillögu um að borgin láti reikna út mögulegan sparnað sem hlytist af því að leggja safnið niður og hvort enn séu forsendur fyrir því í ljósi fyrirhugaðra lagabreytinga. Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, velti því fyrir sér hvort Borgarskjalasafn væri látið gjalda fyrir gagnrýni borgarskjalavarðar í Braggamálinu. Var rætt um að ákvörðun meirihlutans um að leggja safnið niður hafi verði tekin í fljótfærni og án tillits til þeirra sem við safnið starfa. Kynning málsins hafi borið með sér svip leyndarhyggju og rökstuðningur hálf lítilfjörlegur.

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri greip til andsvara fyrir meirihlutann og sagði ekkert liggja fyrir um hvaða kostnað borgin muni bera vegna frumvarpsdraganna svo sem stendur séu allar forsendur sem lagt var út með enn fyrir hendi.

Fleiri úr meirihlutanum kvöddu sér hljóðs. Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, gagnrýndi Kolbrúnu og aðra ræðumenn fyrir dylgjur í garð borgarstjórnar sem væri fyrir neðan virðingu borgarfulltrúanna. Einkum að tengja Borgarskjalasafnsmálið við braggamálið. Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, sagði fáránlegt að saka meirihlutann um að refsa fólki fyrir að gagnrýna meirihlutann. Um sé að ræða óþolandi dylgjur.

Fýkur í borgarstjóra

Þá fékk borgarstjóri aftur orðið eftir að Kolbrún hafði farið yfir forsendur tillögu sinnar aftur og tekið undir breytingatillögu Vinstri Grænna.

„Ég get eiginlega ekki orða bundist yfir þessi umræðu hér af hálfu borgarfulltrúa Kolbrúnar Baldursdóttur í garð starfsmanna borgarinnar,“ sagði Einar eftir að Kolbrún kom starfsmönnum Borgarskjalasafns til varna. Einar sagði að hér væri Kolbrún komin til að verja tiltekna starfsmenn borgarinnar þegar á sama tíma hún „sýnt af sér lágkúrulegustu framkomu í garð borgarstarfsmanna sem ég hef nokkurn tímann séð“ og hann hafi fylgst með borgarmálum lengi.

„Þessar síendurteknu árásir borgarfulltrúans í garð starfsfólks þjónustu- og nýsköpunarsviðs eru orðnar að mjög alvarlegu vandamáli sem ég held að við þurfum að grípa inn í með einhverjum hætti. Þetta gengur allt alltof langt og er búið að standa yfir í of langan tíma og er borgarfulltrúanum til skammar. Ég held við verðum að setja eitthvað ferli í gangi til að taka á þessu vegna þess að þetta gengur út fyrir öll mörk og er þegar og fyrir löngu farið að hafa slæm áhrif á starfsemi borgarinnar“

Kolbrún fékk þá orðið og furðaði sig á því að ÞON væri dregið inn í umræðuna um Borgarskjalasafn. Vissulega heyri safnið undir ÞON en að Kolbrúnu vitandi hafi það verið meirihlutinn sem ákvað að leggja safnið niður en ekki ÞON. Svo ekki nema Einar sé að viðurkenna að framkvæmdin hafi verið önnur, þá megi umræðan um ÞON bíða betri tíma, þó svo að Kolbrún gangist alveg við því að hafa gagnrýnt starfsemi sviðsins en hún kveðst sannfærð um að þar sé pottur brotinn og óskynsamlega farið með skattfé.

Einar útskýrði þá mál sitt með að umræðan í borgarstjórn í dag sé verulega lituð af afstöðu Kolbrúnar til starfsfólk ÞON en „hún hefur farið með síendurtekinn róg um ótrúlegustu mál, drekkt þeim með tilhæfulausum fyrirspurnum, dreift dylgjum og andstyggilegheitum um árabil og það er bara komið nóg af því.“

Kolbrún tók þessu skoti af stóískri ró og brýndi fyrir Einari að þó svo að hann væri að taka við af Degi B. Eggertssyni þyrfti hann ekki að taka allar skoðanir fráfarandi borgarstjóra upp sem sínar eigin.

Að því gættu var þó ekki hreyft við meirihlutanum sem stendur fast við að leggja niður Borgarskjalasafn. Nánar má lesa um tillögu Kolbrúnar í grein hennar um málið. Hvað hitt varðar þá hefur áður verið fjallað um gagnrýni Kolbrúnar í garð ÞON.

Sjá einnig:

Loksins gripið inn í taumlaust djammið í Borgartúni – „Dropinn hefur holað þennan stein, svo mikið er víst“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast