Málfundafélagið Frelsi og fullveldi hélt fund á veitingastaðnumum Catalinu við Hamraborg í gær, mánudag. Þar var samþykkt ályktun um útlendingamál.
Málshefjendur á fundinum voru þeir Birgir Þórarinsson alþingismaður og Stefán Einar Stefánsson blaðamaður.
Í ályktun sem samþykkt var einróma á fundinum er hvatt til þess að tekið verði upp tímabundið eftirlit á landamærum. Tryggt verði að tekið verði á málum afbrotamanna sem hlotið hafa alþjóðlega vernd hér á landi. Félagið vill að gerð sé krafa um aðlögun hælisleitenda að samfélaginu og hafnað er kröfum um inngildingu, sem felur í sér að íslenskt samfélag lagi sig að siðum og háttum aðkomufólks. Í ályktuninni segir að hælisleitendakerfið hafi leitt af sér óviðunandi álag á innviði þjóðarinnar og útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins hafi farið úr böndunum. Ályktunin er eftirfarandi:
„Málfundafélagið Frelsi og fullveldi leggur áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um íslensk gildi, íslenska menningu og sögu og íslenska tungu. Allir þessir þættir móta sjálfsmynd þjóðarinnar og vitund um sérstöðu þess að eiga rætur í landinu og íslensku þjóðlífi og hinni kristnu menningu sem hér hefur staðið um aldir. Íslensk gildi þegar kemur að stjórnskipan og þjóðfélagsgerð fela í sér órofa samstöðu um sjálfstæði og fullveldi, lýðræði, málfrelsi og önnur mannréttindi sem hornsteina samfélagsins.
Málfundafélagið ber heitið Frelsi og fullveldi til að undirstrika frelsi einstaklingsins og fullveldi þjóðarinnar.
Þessir þættir krefjast stöðugrar varðstöðu, ekki síst á sviptingasömum tímum örra þjóðfélagsbreytinga eins og einkenna samtímann. Mjög hefur reynt á landamæri Íslands á umliðnum árum. Málfundafélagið hvetur til þess að yfirstjórn þeirra mála verði efld með því að framvegis verði þau á hendi ríkislögreglustjóra en ekki héraðslögreglu eins og nú er raunin.
Fyrir liggur að skipan mála varðandi hælisleitendakerfið hefur leitt af sér óviðunandi álag á innviði þjóðarinnar um leið og útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins hafa farið úr böndum með hátt í fertugföldun á liðnum áratug. Málfundafélagið hvetur til þess að ráðherra taki upp tímabundið eftirlit á íslenskum landamærum vegna alvarlegrar ógnar við allsherjarreglu og þjóðaröryggi eins og nú er tvímælalaust fyrir hendi. Tryggt verði að taka megi með viðeigandi hætti á málum afbrotamanna sem hlotið hafa alþjóðlega vernd hér á landi. Umsóknir um fjölskyldusameiningu verða því aðeins teknar fyrir að þær eigi við nánustu fjölskyldu, að umsækjandi hafi haft búsetu í landinu í a.m.k. tvö ár, tali íslensku, sé í vinnu, geti sýnt fram á getu til að standa undir framfærslu og hafi yfir húsnæði að ráða. DNA-prófum verði beitt til að sannreyna fjölskyldutengsl. Ekki kemur til greina að ríkið veiti hælisleitendum eða fjölskyldum þeirra meiri aðstoð en býðst almennum íslenskum borgurum.
Málfundafélagið varar við möguleikum erlendra aðila til að hlutast til um trúariðkun á Íslandi, ekki síst ríkja sem hvorki virða né ástunda trúfrelsi. Brýnt er að leggja bann við að taka við fjárframlögum frá slíkum erlendum aðilum eins og Danir töldu nauðsynlegt að gera með lögum sem tóku gildi þar í landi árið 2021. Bann er lagt við fjárframlögum til stjórnmálastarfsemi og sama á að gilda gagnvart starfsemi af trúarlegum toga.
Málfundafélagið áréttar nauðsyn þess að krafa sé gerð um aðlögun hælisleitenda og að þeir lýsi stuðningi við vestræn gildi, lýðræði og mannréttindi, þar á meðal jafnrétti kynjanna. Hafnað er kröfum um að Íslendingar skuli laga sig að siðum og háttum aðkomufólks í krafti svonefndrar inngildingar.
Opinn fundur málfundafélagsins haldinn í Kópavogi 18. mars 2024 hvetur til þess að stjórnvöld grípi til aðgerða eins og að ofan eru raktar til að standa með raunhæfum hætti vörð um íslensk gildi, siði, menningu og tungu.“