Gunnar Helgason, einn dyggasti stuðningsmaður forsetaframboðs Baldurs Þórhallssonar, greinir frá því að boðað verði til opins fundar með stuðningsmönnum háskólaprófessorsins á morgun kl.12 í hádeginu í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Fastlega má búast við því að þar muni Baldur lýsa yfir framboði sínu til embættis forseta Íslands sem hann hefur sterklega verið orðaður við undanfarin misseri.
Frá þessu greinir Gunnar á Facebook-síðunni Baldur og Felix – alla leið sem stofnuð var til að hvetja Baldur til að bjóða sig fram. Viðtökurnar voru miklar en um 18 þúsund manns skráðu sig á stuðningsmannasíðuna á stuttum tíma.
„Krakkar! ÞAÐ ER KOMIÐ AÐ ÞESSU!,“ skrifar Gunnar á síðuna þar sem fundurinn er auglýstur.
Í tilkynningu sem barst fjölmiðlum á sama tíma kemur fram að fundurinn verður sendur út í beinu streymi og þar muni Baldur, ásamt eiginmanni sínum Felix Bergssyni, gera grein fyrir ákvörðun sinni.