Íslandsdeild mannréttindasamtakanna Amnesty International hefur sent eftirfarandi tilkynningu til fjölmiðla:
Rússland verður að afnema ritskoðunarlög sem kæfa andóf
Um langa hríð hefur verið lítið svigrúm fyrir friðsamleg mótmæli og tjáningarfrelsi í Rússlandi en í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu hefur það í raun horfið með öllu. Viku eftir innrásina, í febrúar 2022, innleiddu rússnesk stjórnvöld ritskoðunarlög í þeim tilgangi að brjóta á bak aftur mótmæli gegn innrásinni og stríðinu. Tveimur árum síðar afplánar fjöldi fólks áralanga fangelsisdóma fyrir friðsamlegt andóf gegn stríðinu.
Íslandsdeild Amnesty International tekur nú þátt í alþjóðlegri herferð samtakanna til að vekja athygli á umræddum ritskoðunarlögum og þeim mannréttindabrotum sem af þeim hlýst í Rússlandi.
Hvert er vandamálið?
Það er refsivert „að dreifa falsfréttum“ og „að koma óorði á rússneskan herafla“ (greinar 207.3 og 280.3 í hegningarlögum) í tengslum við stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu, samkvæmt rússnesku ritskoðunarlögunum. Viðurlög geta varðað allt að 15 ára fangelsi. Lögin miða að því að þagga niður í öllum andófsröddum gegn stríðinu. Áhrifin eru raunveruleg og skelfileg. Listafólk, fjölmiðlafólk og fólk úr ýmsum öðrum starfsstéttum hafa hlotið margra ára fangelsidóma fyrir það eitt að sýna hugrekki og tala friðsamlega gegn stríðinu, hvort sem það er á samfélagsmiðlum eða með öðrum hætti. Sögur þessa fólks eru hrópleg áminning um hversu brýnt er að grípa til aðgerða.
Listakonan Aleksandra Skochilenko hlaut sjö ára fangelsisdóm fyrir að skipta út verðmiðum fyrir skilaboð gegn stríðinu í stórmarkaði í Sankti-Pétursborg . Lögregla handtók Aleksöndru snemma morguns hinn 11. apríl 2022 og var hún síðar ákærð fyrir „að dreifa falsfréttum“ um beitingu herafla Rússlands. Aleksandra situr nú á bak við lás og slá á fanganýlendu í Rússlandi við skelfilegar aðstæður og heilsu hennar hrakar ört.
Dmitry Skurikhin er verslunareigandi og aðgerðarsinni frá Leningradskaya í norðvesturhluta Rússlands. Í ágúst árið 2022 útbjó Dmitry skilti með áletruninni: „Rússland, vaknið! Stöðvið þessa vitfirrtu, fölsku, fyrirlitlegu, skammarlegu hernaðaraðgerð!“ og hengdi upp fyrir framan verslun sína. Síðar birti hann mynd af skiltinu á samskiptamiðlinumTelegram. Dmitry hélt einnig á veggspjaldi með áletruninni: „Fyrirgefið Úkraína“, sem dóttir hans Ulyana tók mynd af og sendi á fjölmiðla í tilefni þess að ár var liðið frá innrás Rússlands í Úkraínu þann 24. febrúar 2023. Hann hlaut 18 mánaða dóm á fanganýlendu í Rússlandi fyrir „að koma óorði á herafla Rússlands“.
Fjölmiðlakonan og móðir tveggja barna, Maria Ponomarenko, afplánar sex ára fangelsisdóm fyrir að deila skilaboðum á samskiptamiðlinum Telegram um sprengjuárás Rússa á leikhús í Mariupol í Úkraínu. Hún hefur sætt illri meðferð í fangelsi og henni er refsað með einangrunarvist fyrir engar sakir. Geðheilsu hennar fer sífellt hrakandi og ekki er langt síðan hún reyndi að fremja sjálfsvíg innan veggja fangelsisins.
Krefjumst réttlætis og frelsis
Birtingarmynd ritskoðunarlaga um hernað í Rússlandi er grimmileg. Fjöldi annarra einstaklinga, vítt og breitt um Rússland, hafa verið fangelsaðir fyrir friðsamleg mótmæli gegn stríðinu. Samkvæmt Amnesty International hafa rúmlega 20.000 einstaklingar verið sóttir til saka fyrir andóf sitt frá upphafi stríðsins.
Þrátt fyrir harðar refsingar heldur fólk áfram að mótmæla stríðinu í Úkraínu. Stjórnvöld í Rússlandi eru aftur á móti ákveðin í að berja allt andóf niður að fullu. Árið 2023 jókst bæði fjöldi og tímalengd fangelsisdóma fyrir samfélagsmiðlafærslur gegn stríðinu en meðallengd fangelsisdóma fyrir slíkar færslur er 64 mánuðir. Árið 2024 samþykkti rússneska þingið jafnframt að leyfa upptöku á eignum þeirra sem sæta ákæru á grundvelli ritskoðunarlaganna.
Rússnesku ritskoðunarlögin brjóta gegn mannréttindum. Rússland verður að afnema þessi ósanngjörnu og grimmilegu lög án tafar og leysa öll þau úr haldi sem eru fangelsuð fyrir að tjá skoðanir sínar friðsamlega gegn stríðinu.
Sýnum fólki í Rússlandi samstöðu sem hefur þor til að mótmæla stríðinu gegn Úkraínu og nýta rétt sinn til tjáningar. Taktu þátt í herferð Íslandsdeildar Amnesty International og skrifaðu undir ákall um að afnema ritskoðunarlögin í Rússlandi og frelsa fólk sem er í haldi á grundvelli þeirra. Hægt er að skrifa undir ákallið hér. Minnum þannig valdhafa í Rússlandi á að ekki megi skerða tjáningarfrelsið og réttinn til friðsamlegra fundahalda.
Undirskrift þín sendir sterk skilaboð: heimurinn fylgist með og við stöndum með öllum sem þora að láta rödd sína heyrast. Samtakamáttur hefur áhrif.