Konan sem kærði Albert Guðmundsson fyrir kynferðisbrot síðasta sumar hefur kært niðurfellingu málsins til héraðssaksóknara. Frá þessu er sagt á RÚV.is
Þar segir einnig að Albert verði ekki tekinn úr íslenska landsliðshópnum sem nú er í verkefni. „Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, segir ákvörðun um að kæra niðurfellingu málsins ekki hafa áhrif á stöðu Alberts í landsliðinu. Verkefnið var þegar hafið,“ segir í frétt RÚV.
„Það var ákveðið að þjálfarinn mátti velja hann í landsliðið af því þetta var fellt niður. En við teljum að við viljum láta hann klára þetta verkefni. Stjórn ákvað það að landsliðsverkefnið telst vera hafið, leikmannahópurinn var opinberaður og Albert mun klára þetta verkefni núna,“ segir Þorvaldur við RÚV.
„Það sem stjórn KSÍ hafði að leiðarljósi voru reglur sem voru ekki alveg nógu skýrar. Við vildum gera þær skýrari, það er að segja reglur varðandi ákæruferlið. Stjórnin tók það til skoðunar á síðasta fundi að Albert muni klára þetta verkefni, og síðan munum við skoða út frá því.
Albert hefur verið frábær með Genoa á Ítalíu í vetur en hann hefur ekki spilað með landsliðinu frá því að málið kom upp, ákæruvaldið felldi málið niður fyrr á þessu ári en þeirri ákvörðun hefur nú verið áfrýjað.
Í frétt RÚV segir lögmaður konunnar að KSÍ skuldi henni afsökunarbeiðni vegna ummæla sem Age Hareide, landsliðsþjálfari, lét falla á dögunum þar sem hann sagði að það yrði mikið áfall fyrir landsliðið ef Albert yrði ekki með gegn Ísrael á fimmtudag í leik um laust sæti á EM.
„Það eru reglur í sambandinu sem ég verð að fylgja. Það var synd fyrir Ísland og Albert,“ sagði Hareide en Eva Bryndís Helgadóttir, lögmaður konunnar, taldi orð norska þjálfarans verulega ósmekkleg og í raun siðferðislega ámæliverð. Hann væri að egna þjóðina gegn umbjóðenda hennar sem væri að fara lögformlegar leiðir til að ná fram réttlæti vegna misbeitingar sem hún varð fyrir.
„Ég hef verið í sambandi við Albert allan tímann til að missa hann ekki alveg úr landsliðinu. Hann er mjög gíraður að koma inn og standa sig vel fyrir okkur,“ sagði Hareide á fréttamannafundinum á föstudag
„Það eru reglur hjá sambandinu og ég þarf að fylgja þeim reglum. Auðvitað væri það áfall fyrir landsliðið og Albert ef það myndi gerast. Við verðum að sjá hvað gerist,“