Þannig er mál með vexti að fasteignasali á umræddri fasteignasölu, Julie Bundock, var að undirbúa opið hús þegar hún kveikti óvart í húsinu.
Julie tók eftir því að eigendur hússins höfðu gleymt því að ganga frá rúmfötum sem þau höfðu hengt upp til þerris. Tók hún rúmfötin og skellti þeim í hillu í herbergi á neðri hæðinni, beint fyrir neðan ljós sem hún síðan kveikti á.
Um tuttugu mínútum síðar var mikill eldur kominn upp í húsinu og leiddi rannsókn lögreglu í ljós að eldsupptökin höfðu verið í umræddum rúmfötum sem voru nánast í beinni snertingu við sjóðheita ljósaperuna.
Það er skemmst frá því að segja að húsið, sem metið var á 270 milljónir króna, gjöreyðilagðist í eldsvoðanum. Eigandi hússins, Peter Alan Bush, stefndi fasteignasölunni vegna málsins sem og fjórir leigjendur sem misstu innbú sitt í eldsvoðanum.
Fyrir dómi sagði Peter að Julie hefði hringt í hann skömmu eftir að eldurinn kom upp og sagt: „Guð minn góður, Pete. Ég held ég hafi kveikt í húsinu þínu.“
Dómari sagði að Julie hefði átt að vita betur þegar hún setti rúmfötin beint undir ljósið og mat það sem svo að hún – eða fasteignasalan sem hún starfaði fyrir – bæri að hluta til ábyrgð á því hvernig fór.