Viðtal sem birtist við Jón Yngva Jóhannsson, dósent, á RÚV og frétt var gerð upp úr á RÚV-vefnum, hefur vakið mjög líflegar umræður á Facebook. Umfjöllunarefnið er bókaflokkurinn Skemmtilegu smábarnabækurnar sem margar kynslóðir Íslendinga kannast við en bækurnar hafa meðal annars verið seldar í verslunum Bónus undanfarin ár.
Jón Yngvi fjallar um þessar barnabækur í grein sinni Klassíkin okkar: Skemmtilegu smábarnabækurnar og íslensk menning, og kemst meðal annars að þeirri niðurstöðu að bækurnar myndu valda hneykslan ef þær yrðu gefnar út í dag.
„Þetta eru bækur sem við þekkjum öll: Láki jarðálfur, Tralli, Bláa kannan, Græni hatturinn og allar þessar bækur. Þær hafa eignast mjög sérkennilegt líf á Íslandi því þú finnur þessar bækur hvergi annars staðar,“ segir Jón Yngvi í viðtali við RÚV.
Hann segir sumar bókanna vera uppfullar af kynþáttahyggju og staðalmyndum og tiltekur sem dæmi Láka jarðálf. Sagan er dönsk og kom upphaflega út á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Bendir Jón Yngri á að Láki breyti um kynþátt í bókinnni, hann hætti að vera með svart, gróft, hrokkið hár og fái ljóst hár í staðinn. Bókin endurspegli augjóslega kynþáttafordóma. „Hann aðlagast og aðlögunin er mjög kynþáttabundin. Hann verður að hvítum dreng.“ Í sögunni fer Láki frá foreldruum sínum og til mennskra foreldra og þar er hann siðaður til. Segir Jón Yngvi verkið hafa tengsl við nýlendusögu Dana á Grænlandi. „Það er þekkt stef í stefnu allra nýlenduvelda að taka börn af foreldrum sínum og ala þau upp, siðmennta þau. Það er það sem kemur fyrir Láka og það er litið á það sem mjög æskilegt.“
Jón Yngvi tekur fram að hann vilji ekki að bækurnar verði teknar úr umferð. Hins vegar telur hann að þær séu svo aðgengilegar sem raun ber vitni vegna þess að þær eru ódýrar. Sé það sorglegur vitnisburður um sparnaðarpólitík þegar kemur að barnabókum.
Þessi afstaða Jóns Yngva, að hann vilji ekki taka bækurnar úr umferð þó að hann sé gagnrýninn á þær, virðist ekki komast til skila í samfélagsumræðunni, að minnsta kosti ekki í þeirri umræðu sem geisar á Facebook-síðu RÚV þar sem frétt upp úr viðtalinu við Jón Yngva er deilt.
Annar þekktur bókmenntamaður, Páll Baldvin Baldvinsson, vísar þar í sterka sáputegund: „1313 herferð Jóns Yngva er fyndin, sérkennilegt að maður á hans aldri og í hans áhrifastöðu skuli hefja skrúbbinn og leita uppi forna texta og hefja þrifin með viðvörunarbjöllurnar klingjandi. Hvað næst, biflían, sálmabókin, dægurlagatextar síðustu aldar? Þessi þriflegi siðakall er sannarlega pc.“
Mörg ummælin eru niðrandi, til dæmis segir Guðmundur Pálsson læknir: „Hér er það höfundurinn Jón Yngvi Wók sem er skaðvaldurinn, ekki bækurnar.“
Þórir Jökull Þorsteinsson, prestur, segir:
„Til þeirra sem eiga það: Látiđ vinsamlegast Láka jarðálf vera! Bláu könnuna; Tralla og allar hinar sömuleiðis. Ykkur kemur ekkert við hvað foreldrar lesa fyrir börnin sín – né heldur er það í verkahring ykkar ađ sortera ofan í fólk hvađ þiđ teljið viðurkvæmileg viðhorf. Þessar bækur myndu rokseljast ef þær kæmu óbreyttar út og þeim mun betur sem þiđ blésuð ykkur út af vanþóknun.“
Fjölmargir minna þekktir netverjar láta í sér heyra og mótmæla meintri aðför að þessum barnabókum.
Á allt annarri skoðun er hins vegar ljóðskáldið Anton Helgi Jónsson. Hann bendir á að stofnanir hafi eftirlit með matvælum sem verslanir bjóða. Það vanti hins vegar klárlega merkingu um síðasta söludag á smábarnabækurnar sem stillt er upp innan um matvæli í Bónus:
„Stofnanir hafa eftirlit með matvælum sem verslanir bjóða. Það er minnt á síðasta söludag, hollustu, gæði. Ekkert slíkt eftirlit er haft með barnabókum. Tímarnir breytast og mannfólkið með, það er staðreynd, viðhorf sem voru góð og gild fyrir nokkrum áratugum þykja ekki boðleg núna. Samt er aldrei merktur neinn síðasti söludagur á bækur sem börnum eru boðnar. Aftur og aftur er óhollum smábarnabókum stillt fram og hvorki skeytt um vafasaman uppruna né viðbjóðsleg aukaefni. Því miður þýðir ekkert að kvarta við einn né neinn. Það yrði bara kallað á rasskellta Íslendinginn sem segðist hafa borðað úldna skötu í öll mál sem barn og aldrei orðið misdægurt.“
Anton Helgi segir enn fremur:
„Rassskellti Íslendingurinn er einstaklega hógvær að eðlisfari og lætur lítið fyrir sér fara en hvenær sem hastað er á einhvern fasista í opinberri umræðu kemur hann fram og segist vera besti vinur hans Voltaire og málfrelsisins. Núna er rassskellti Íslendingurinn mættur í kommentakerfin á samfélagsmiðlunum og lýsir því yfir hvað hann hafi þroskast mikið á því að lesa vondar smábarnabækur í æsku. Það er semsagt ekki orðum aukið að íslensk menning sé merkilegt fyrirbæri, hún byggist á bókum og bækurnar eru á boðstólum í verslunum innan um kjöt og mjólk og margvísleg önnur matvæli. Þar eru þær á sérstökum kjörum.“