Þetta er niðurstaða nýrrar ástralskrar rannsóknar að sögn The Guardian. John Gerrard, sem er aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagðist vonast til að niðurstaðan dragi úr ótta fólks við langvarandi COVID-19.
„Við teljum að það sé kominn tími til að hætt að nota orð eins og „langvarandi COVID“. Það bendir ranglega til að langvarandi sjúkdómseinkenni tengist COVID og það getur valdið ónauðsynlegri hræðslu, sem getur í sumum tilfellum dregið úr bata COVID-sjúklinga,“ sagði hann að sögn The Guardian.
Í rannsókninni var fylgst með 5.112 manns í Queensland í Ástralíu í eitt ár. 2.399 greindust með COVID-19, 995 með inflúensu en hinir sluppu alveg við veikindi.
Árið síðar var spurningalisti sendur til fólksins og var það spurt út í eftirköst og langvarandi einkenni. 16% glímdu við langvarandi sjúkdómseinkenni ári síðar og 3,6% sögðust glíma við miðlungs til mikilla eftirkasta. 3% glímdu við eftirköst COVID-19 og 3,4% við eftirköst eftir inflúensu.
Rannsóknin leiddi ekki í ljós nein merki þess að þeir sem fengu COVID-19 hafi frekar átt á hættu að glíma við langvarandi sjúkdómseinkenni en þeir sem ekki fengu COVID-19.