Halla Tómasdóttir, frumkvöðull, býður sig fram til embættis forseta Íslands. Þetta tilkynnti hún á blaðamannafundi í hádeginu í dag sem fram fór í Grósku.
Halla bauð sig fram til forseta árið 2016. Þá hlaut hún 27,93 prósenta fylgi og hafnaði í öðru sæti á eftir Guðna Th. Jóhannessyni sem fékk 39,08 prósent.
Halla er forstjóri fyrirtækisins B Team sem leiðir umbreytingu í viðskipta og stjórnunarháttum. Hún hefur einnig starfað hjá fyrirtækjum á borð við Pepsi Cola og M&M/Mars. Þá hefur hún tekið þátt í að leiða verkefnið Auður í krafti kvenna.