Það eru margir sem muna eftir fyrrum stjörnunni Dani Osvaldo sem gerði garðinn frægan sem knattspyrnumaður.
Osvaldo er 38 ára gamall í dag en hann lagði skóna á hilluna 2016 eftir stutt stopp hjá Boca Juniors í Argentínu þar sem hann er fæddur.
Osvaldo samdi vissulega síðar við Banfield fjórum árum seinna en spilaði aðeins tvo leiki og hætti aftur skömmu seinna.
Osvaldo á að baki leiki fyrir stór lið í Evrópu en nefna má Fiorentina, Atalanta, Espanyol, Roma, Southampton, Juventus og Inter.
Argentínumaðurinn reyndi fyrir sér sem rokkstjarna eftir að ferlinum lauk en er nú að upplifa mjög erfiða tíma.
Hann hefur opnað sig í fyrsta sinn um eigið ástand en líf hans hefur verið á hraðri niðurleið síðan ferlinum lauk.
,,Það er erfitt fyrir mig að birta þetta myndband því ég hef aldrei upplifað þessar tilfinningar áður,“ sagði Osvaldo sem lék 14 landsleiki fyrir Ítalíu.
,,Þetta er réttur tími því ég er örvæntingafullur og er ekki í góðu ástandi. Ég veit ekki hvort ég sé að grátbiðja um hjálp eða hvort ég þurfi að tala við sérfræðing. Ég hef verið þunglyndur í langan tíma.“
,,Í kjölfarið varð ég fíkill, bæði þegar kom að áfengi og vímuefnum. Sannleikurinn er sá að ég hef enga stjórn á eigin lífi lengur.“
,,Ég er með lítið sjálfstraust og glími við þunglyndi. Vegna þess þá leita ég aftur í fíknina.“