Thomas Gravesen, fyrrum leikmaður Real Madrid og Everton, er brjálaður eftir að danski landsliðshópurinn var kynntur fyrir helgi.
Gravesen botnar ekkert í því af hverju Christian Eriksen var valinn í hópinn en hann er varaskeifa hjá Manchester United í dag.
Eriksen var um tíma frábær miðjumaður og einn sá besti í ensku úrvalsdeildinni en hann lék þá með Tottenham.
Gravesen ber virðingu fyrir Eriksen sem er kominn á seinni árin í boltanum en hefði viljað sjá hinn 27 ára gamla Nicolai Vallys í hópnum í staðinn.
Vallys á að baki einn landsleik fyrir Dana og hefur skorað tíu mörk í 19 deildarleikjum fyrir Brondby í vetur.
,,Það er til skammar að hann hafi ekki valið Nicolai Vallys. Það er skandall því við erum með landsliðsþjálfara sem lítur niður á landsliðið,“ sagði Gravesen.
,,Þeir ákveða þess í stað að velja leikmann sem er á bekknum hjá Manchester United, Christian Eriksen, bara til að halda sambandinu gangandi.“
,,Christian Eriksen sem við þekkjum og elskum er ekki lengur til staðar, hann spilar ekki fótbolta í dag. Hann situr á bekknum og horfir á fótbolta.“