Það var mjög klókt af Jurgen Klopp að greina frá því að hann væri á förum frá Liverpool strax í janúar á þessu ári.
Þetta segir fyrrum enski landsliðsmaðurinn Joe Cole sem lék um tíma með Liverpool en þó ekki undir Klopp.
Liverpool hefur spilað glimrandi vel undanfarið og er í harðri toppbaráttu á Englandi og vann þá Sparta Prag samanlagt 11-2 í Evrópudeildinni.
Klopp mun kveðja Liverpool eftir tímabilið sem hefur svo sannarlega rifið menn í gang og virðist Þjóðverjinn njóta lífsins eftir að ákvörðunin var tilkynnt.
,,Þarna er aðalmaðurinn, Jurgen Klopp, hann er orkumikill á ný og er að njóta sín til fulls,“ sagði Cole um Klopp sem ákveður það sjálfur að stíga til hliðar.
,,Allir leikmenn sem klæða sig í rauðu treyjuna í dag sinna sínu starfi frábærlega og eru í toppstandi.“
,,Klopp er klárlega tilbúinn í endasprett deildarinnar og ég tel að það hafi verið mjög klókt að greina frá því að hann væri á förum strax í janúar.“
,,Það sem hefur gerst er það sem ég bjóst við að myndi gerast – allir stuðningsmenn liðsins standa við bakið á honum og átta sig á því að hann verður ekki hér til eilífðar.“