Allir þrír sakborningarnir í hinu svokallaða auðkýfingsmáli krefjast frávísunar ákæru en aðalmeðferð í málinu á að fara fram við Héraðsdóm Suðurlands síðar í mánuðinum.
Um er að ræða sakamál gegn þremur konum sem ákærðar eru fyrir að hafa ýmist ekki gert grein fyrir eða gert ranglega grein fyrir háum fjárhæðum sem erlendur auðkýfingur greiddi þeim um nokkurra ára skeið. Tvær kvennanna gerðu ekki grein fyrir meintum fjárgjöfum en ein konan, sú sem samkvæmt ákæru hlaut hæstu greiðslurnar frá manninum, eða um 130 milljónir króna, taldi greiðslurnar fram sem skuldir og hefur staðhæft að um sé að ræða langtímalán frá manninum.
Samkvæmt heimildum DV bera lögmennirnir meðal annars við launaukakerfi starfsmanna hjá Skatttjóra en fjallað var ítarlega um það í Morgunblaðinu í janúar á þessu ári. Var kerfið lagt niður í febrúar síðastliðnum en mun hafa verið í notkun á meðan rannsókn á máli kvennanna stóð yfir. DV veit ekki til þess að launaukakerfi starfsmanna Skattsins, sem var mjög umdeilt, hafi áður komið við sögu í dómsmáli en skattsvikamál eru mjög algeng sakamál fyrir dómi.
Skatturinn greiddi starfsmönnum sem stunda eftirlits- og rannsóknarhluta skattrannsókna kaupauka síðastliðin fjögur ár með hliðsjón af því hvort þeir hafi náð settu endurákvörðunarhlutfalli og endurákvörðunarfjárhæðum. Talið er að allt að 260 milljónir króna hafi farið í slíkan kaupauka á þessu fjögurra ára tímabili.
Fjármálaráðherra kallaði eftir upplýsingum um málið eftir umfjöllun Morgunblðasins og í kjölfar þess var ákveðið að afnema umrætt kaupaukakerfi hjá Skattinum.
Lögmenn kvennanna þriggja telja verulegan vafa leika á óhlutdrægni starfsmanna Skattsins við rannsókn málsins og telja mögulegt að þeir hafi verið vanhæfir til að rannsaka mál ákærðu.
Ennfremur er frávísunarkrafan byggð á því að verulegur vafi leikur á því að aðalvitnið í málinu, sem er erlendi auðkýfingurinn, hafi verið yfirheyrður við rannsókn málsins.
Frávísunarkrafan verður tekin fyrir meðfram aðalmeðferð málsins við Héraðsdóm Suðurlands föstudaginn 22. mars.
Samkvæmt heimildum DV eru allir þrír sakborningarnir og lögmenn þeirra sammála um frávísunarkröfuna. Lögmaður konunnar sem hlaut hæstu greiðslurnar frá auðkýfingnum er Sævar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður, en lögmenn hinna kvennanna, sem eru mæðgur, eru Björgvin Jónsson (dóttirin) og Ólafur Kristinsson lögmaður (móðirin).