Age Hareide landsliðsþjálfari segir að það hefði ekki verið sanngjarnt gagnvart öðrum leikmönnum landsliðsins ef hann hefði valið Gylfa Þór Sigurðsson í hópinn fyrir komandi umspilsleik gegn Ísrael.
Ísland mætir Ísrael í undanúrslitum um sæti á EM á fimmtudag. Gylfi var í gær kynntur sem nýr leikmaður Vals en hann rifti samningi sínum við Lyngby í janúar vegna meiðsla og hefur ekki spilað fótboltaleik síðan í haust.
Gylfi sagðist hins vegar í viðtali við 433.is vera í frábæru formi og mjög svekktur með að vera ekki valinn í landsliðshópinn.
„Ég er mjög ánægður með að hann sé óánægður. Það þýðir að þetta sé honum mjög mikilvægt. Hann hefur verið lengi frá vegna meiðsla og hefur ekki spilað neitt 2024. Hann var að snúa aftur og var að byrja aftur. Það væri ekki sanngjarnt gagnvart öðrum leikmönnum að velja hann. Hann er mjög góður leikmaður,“ sagði Hareide á blaðamannafundi í dag.
„Ef hann byrjar að spila aftur og sýnir hvað hann getur standa dyrnar honum opnar. Vonandi getum við valið hann aftur sem fyrst.
Maður þarf að spila leiki til að vera valinn og ég held að Gylfi viti það,“ sagði norski þjálfarinn.