Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH segir að það hafi verið ákvörðun félagsins að fara ekki í viðræður við Gylfa Þór Sigurðsson um að koma í raðir félagsins.
FH bauð Gylfa ekki samning eins og hann sagði sjálfur frá í samtali við 433.is í gær.
Smelltu hér til að hlusta á ítarlegt viðtal við Gylfa um stöðu mála.
Gylfi Þór samdi við Val í gær en bæði Víkingur og KR reyndu að sannfæra hann um að koma en hann ákvað að velja Val og skrifaði undir tveggja ára samning.
„Það fór aldrei svona langt, við buðum honum að æfa með okkur fyrir ári síðan sem hann afþakkaði. Það var ákvörðun sem var tekin að fara ekki í viðræður um samning núna, við ákváðum að taka ekki þátt að þessu sinni,“ segir Davíð í samtali við 433.is.
Gylfi ólst upp hjá FH og hafði fyrir nokkrum árum sagt að hann ætlaði sér að klára ferilinn með FH, þrátt fyrir að það sé enn mögulegt er það hins vegar ólíklegt en Gylfi verður á 36 aldursári þegar samningur hans við Val rennur út.