„Þegar eldsumbrotin í byrjun febrúar rufu lagnir og gerðu Reykjanesbæ heitavatnslausan fór af stað ótrúleg atburðarás þar sem hópur iðnaðarmanna vann hetjuleg afrek. Hér er sagan sögð,“
segir um myndband sem Samtök Iðnaðarins birtu á Facebook-síðu sinni fyrr í dag.
Þann 8. febrúar opnaðist 3 km löng gossprunga á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells, hraun rann yfir Bláalónsveg, hitaveitulagnir fóru undir hraun, bæði eldri lögn og nýrri. Tugþúsundir íbúa urðu heitavatnslausir og innviðir lágu undir skemmdum. 100 iðnaðarmenn og sérfræðingar unnu allan sólarhringinn við að leggja nýja leiðslu yfir hraunið.
„Sjá síðan þegar menn eru að hlaupa þarna yfir hraunið, til að leggja nýja lögn yfir nýtt hraun,“ segir Þorfinnur Gunnlaugsson verkefnastjóri hjá Lagnaþjónustu Suðurnesja og Grindvíkingur. „Til að koma vatni á íbúa, það er þessi hugsun sem maður er búinn að já sterkt í gegnum þetta allt. Hvað allir eru tilbúnir bara, bara þessi náungakærleikur.“
Heitt vatn var komið aftur á 12. febrúar.
Hjálmur Sigurðsson framkvæmdastjóri hjá Ístak segir verkið hafa gjörbreyst og Jón Haukur Steingrímsson jarðverkfræðingur hjá Eflu segir menn ekkert endilega hafa viljað leggja veg yfir nýtt hraun.
„Það er enginn manúal sem útskýrir það fyrir mönnum fyrirfram hvað þú getur mögulega gert, en ef hraunið er með okkur í liði og aðstæður réttar, þá höfum við sýnt að þetta er alveg hægt. Og þessi reynsla sem kemur úr þessu brölti þarna árið 2021, ef við hefðum ekki haft þá reynslu í þessum viðbrögðum núna, þá værum við á allt öðrum stað.“
Fleiri hetjur sem koma að verkefninu segja frá sinni vinnu við verkefnið.
„Þetta eru algjörir naglar þessir karlar. Alveg ótrúlegir, bara tilbúnir í allt,“ segir Þorfinnur og rifjar upp þegar gaus 14. janúar. „Menn hlaupa til og ná í tæki til að loka garðinum yfir Grindavíkurveginn. Ef þeir hefðu ekki gert það þá er húsið mitt í beinni línu. Þannig að hraunið hefði tekið það þá bara, beint stefnuna heim, ef þeir hefðu ekki reddað þessu. Þannig, það er magnað að fylgjast með öllum á þessu svæði, það er ekki sjálfgefið að vera hérna.“
„Í svona stórum atburðum eins og við erum með hérna, þá er verktakaflotinn orðinn viðbragðsaðili. Við erum að sinna bráða björgun á margan hátt, bjarga innviðum,“ segir Haukur.
„Þetta er bara ómetanlegt. Að sjá bara hvað heildin var tilbúin að berjast og hjálpa þegar á reyndi, þetta var bara ómetanlegt,“ segir Tómas Guðmundsson eigandi TG-Raf og Grindvíkingur.
„Þetta eru algjörar hetjur og bara einstakur hópur,“ segir Ármann Garðarsson verkstjóri hjá Ístak.