39,5 prósent aðspurðra eru óánægð með framlag Íslands í Eurovision, Scared of Heights með Heru Björk. 33,4 prósent eru ánægð en 27,1 segja framlagið í meðallagi.
Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu.
Af þeim sem taka afstöðu til lagsins eru 23,3 prósent mjög óánægð með það en 18,1 mjög ánægð.
42 prósent vildu að Hera ynni lokaeinvígið en 37,9 prósent Bashar. Fleiri vilja að Ísland sniðgangi Eurovision en taki þátt. Það er 42,2 prósent á móti 32,3 prósentum.
Almennt er eldra fólk ánægðara með framlag Íslands en yngra. Nærri helmingur eldri borgara eru ánægð en 21,1 prósent fólks á fertugsaldri.
Ánægjan er minnst í Reykjavík, 25,7 prósent, en mest á Vesturlandi og Vestfjörðum, 47 prósent.
Þegar kemur að stjórnmálaskoðunum eru Sjálfstæðismenn ánægðastir með lag Heru, 55,6 prósent styðja það. 50 prósent Miðflokksmanna, 40,9 prósent stuðningsfólks Flokks fólksins, 35,5 prósent Vinstri grænna, 33,6 prósent Framsóknarmanna, 24,1 prósent Samfylkingarfólks, 23,3 prósent Viðreisnarfólks, 13,2 prósent Sósíalista en aðeins 1,5 prósent Pírata.
Könnunin var netkönnun gerð dagana 6. til 12. mars. Svarendur voru 983.