Maðurinn hafði glímt við mígreni lengi vel en skyndilega var eins og lyfin virkuðu ekki. Eftir að hafa farið í heilaskanna kom í ljós að í heila mannsins reyndist lirfa af bandormi dvelja í góðu yfirlæti.
Fjallað var um málið í vísindaritinu American Journal of Case Reports og hafa bandarískir fjölmiðlar, þar á meðal CNN, fjallað um málið.
Um er að ræða svokallaðan svínabandorm (e. Taenia solium) sem eins og nafnið gefur til kynna á rætur sínar að rekja til svína. Það furðulega við greininguna var sú staðreynd að maðurinn var ekki beint útsettur fyrir smiti; hann starfaði ekki í svínarækt, hafði ekki komið nálægt lifandi svínum og hafði ekki heimsótt tilgreind hættusvæði.
Hann játaði hins vegar að hafa borðað lítið eldað beikon allt sitt líf. Hvernig lirfan rataði í heila mannsins er óvíst en vísindamenn eru með sínar kenningar. Ein er á þá leið að maðurinn hafi borðað sýkt kjöt og ekki þvegið sér nægilega vel um hendurnar eftir að hafa farið á salernið. Eggin hafi svo ratað aftur inn í líkamann í gegnum nef eða munn.
Í greinargerð vísindamanna kemur fram að maðurinn hafi í raun verið heppinn að hafa bara þjáðst af höfuðverkjum því mikil hætta sé á heilablæðingu þegar lirfurnar komast í heilann.
Maðurinn fór á sterkan lyfjakúr eftir að þetta uppgötvaðist og tókst honum að losna við hinn óboðna gest í kjölfarið.