Jadon Sancho skoraði í 2-0 sigri Dortmund á PSV í gær, sem vann þar af leiðandi 3-1 samanlagt í einvígi liðanna í 8-liða úrslitum.
Sancho er á láni hjá Dortmund frá United, sem keypti hann einmitt frá þýska liðunu 2021. Sigur Dortmund í gær gæti haft slæm áhrif á United þegar allt kemur til alls. Það er þar sem United vonast til að fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar dugi til að fara í Meistaradeildina á næstu leiktíð, fremur en bara efstu fjögur eins og venjulega.
Meistaradeildinni verður breytt á næsta ári og taka 36 lið þátt en ekki 32. Þau tvö lönd með flest stig, sem miðast út frá gengi félagsliða landanna í Evrópukeppnum á þessari leiktíð, fá auka sæti í Meistaradeildinni á þeirri næstu.
United er sem stendur í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar en lætur sig enn dreyma um það fimmta.
Sem stendur eru Ítalía og Þýskaland þó í þessum efstu tveimur sætum. Það var reiðarslag fyrir England að United og Newcastle hafi dottið út í riðlakeppni Meistaradeildarinnar til að mynda.
Sigur Dortmund í gær styrkti stöð Þýskalands í öðru sæti, en landið er 0,625 stigum á undan Englandi.
United þarf að treysta á að lið eins og Arsenal, Manchester City og Liverpool geri vel í Evrópu það sem eftir lifir leiktíðar og vonast til að það dugi til að tryggja Englandi fimmta Meistaradeildarsætið.