Christian var opinberaður árið 2020 sem hinn grunaði í hvarfi Madeleine og eru saksóknarar vissir um að hann beri ábyrgð á hvarfi og dauða hennar. Lögreglu virðist þó skorta bein sönnunargögn til að geta ákært hann.
Breska blaðið Daily Star varpaði á dögunum ljósi á þennan 47 ára Þjóðverja sem átti býsna erfiða æsku. Byggist umfjöllunin að hluta úr bókinni My Search for Madeleine þar sem höfundurinn Jon Clarke lagðist í rannsóknarvinnu um uppvaxtarár Brueckner.
Brueckner fæddist í Wurzburg árið 1976 og var enn ungbarn þegar honum var komið fyrir í fóstri ásamt bróður sínum eftir að líffræðileg móðir hans yfirgaf þá bræður.
Fósturforeldrar þeirra bræðra, Brigitte og Fritz, höfðu slæmt orð á sér og hafa nágrannar þeirra lýst því að drengirnir hafi verið læstir inni í myrkruðu herbergi tímunum saman og þeir beittir líkamlegu og andlegu ofbeldi. Þeir hafi verið niðurlægðir með ljótum orðum sem beindust meðal annars að foreldrum þeirra, sem að sögn fósturforeldranna voru „glæpamaður og hóra“.
Í bók Clarke kemur fram að Brueckner hafi verið laminn með belti og Brigitte réttlætt mannvonsku sína með þeim orðum að fósturbörn og börn frá brotnum heimilum þyrfti að siða til og aga. Fritz er sagður hafa flengt Brueckner á beran rassinn og hótað því að halda áfram ef hann myndi fara að gráta. Í bókinni kom fram að komið hefði verið fram við hans eins og skepnu og hann ekki fengið vatn þegar hann var þyrstur eða mat þegar hann var svangur.
Fimmtán ára gamall var hann fluttur á sérstakt heimili fyrir vandræðaunglinga en ekki löngu síðar fór að bera á afbrigðilegri kynferðislegri hegðun hans.
Sautján ára gamall var hann sakfelldur fyrir að misnota sex ára stúlku á leikvelli og nokkrum dögum áður en réttarhöldin hófust beraði hann sig fyrir framan börn. Hann hlaut tveggja ára dóm og var gert að afplána dóminn á heimili fyrir unga afbrotamenn.
Eftir að hafa lokið þeirri afplánun byrjaði Brueckner að ferðast og kom hann fyrst til Portúgals árið 1995 þar sem hann hélt áfram að brjóta lögin. Samhliða afbrotum sinnti hann allskonar vinnu; hann lagði stund á nám í bifvélavirkjun og tók að sér vaktir á veitingastöðum og börum þar sem hann þjónaði til borðs. Hann framfleytti sér einnig með innbrotum og fíkniefnasölu.
Tíu árum eftir að hann flutti til Portúgals nauðgaði hann 72 ára bandarískri konu. Brotið framdi hann í september 2005, eða einu og hálfu ári áður en Madeleine McCann hvarf. Hann var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir brotið og afplánar hann þann dóm þessa dagana í fangelsinu í þýsku borginni Oldenburg.
Saksóknarar eru sagðir vinna að því sleitulaust að finna upplýsingar sem geta varpað ljósi á sekt hins 47 ára Þjóðverja. Hvort það tekst verður tíminn að leiða í ljós.