Ólafur Jóhannesson, fyrrum landsliðsþjálfari í knattspyrnu var einn af þeim sem kom að því að fá Gylfa Þór Sigurðsosn í Val.
Frá þessu segir Börkur Edvardsson í samtali við Fótbolta.net.
Börkur sem er formaður knattspyrnudeildar Vals leiddi viðræðurnar fyrir hönd Vals en Ólafur starfar í fagráði þegar kemur að leikmannamálum Vals.
„Óli Jó er mikill Valsmaður, ég og Óli erum miklir vinir og tölum saman oft á dag, ræðum um fótbolta og allt og ekkert í okkar samtölum. Já, hann er stór hluti af okkar leikmannamálum og leikmannapælingum og þeirri framtíðarsýn sem við erum að skapa. Hann er í fagráði knattspyrnudeildar og kemur mikið að máli á Hlíðarenda. Við leitum mikið til hans,“ segir Börkur við Fótbolta.net.
Ólafur var lengi vel þjálfari Vals og hefur félagið haldið honum inn í starfinu eftir að hann hætti að þjálfa. Ólafur var einnig lengi vel þjálfari FH.
Ólafur og faðir Gylfa eru miklir vinir og hefur það vafalítið hjálpað til við að landa þessum magnaða knattspyrnumanni á Hlíðarenda.