Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals segir að það hafi verið mikil gleði á meðal forráðamanna félagsins þegar Gylfi Þór Sigurðsson skrifaði undir samning við félagið í gær.
Gylfi Þór skrifaði undir samning sinn við Val í gær og félagið staðfesti svo komu hans til félagsins í dag.
„Það er gríðarleg ánægja í herbúðum Vals á Hlíðarenda og um allt samfélagið held ég að svona leikmaður sé mættur heim,“ segir Börkur í samtali við 433.is.
Börkur segir að mönnum hafi liðið vel í gær þegar allt var í höfn. „Okkur leið mjög vel, það er búið að leggja mikla vinnu í þetta samtal. Maður uppsker eins og maður sáir í þessu eins og öðru í lífinu. VIð erum búnir að landa stærsta bitanum í sögu íslenska fótboltans.“
Gylfi æfði með Val síðasta sumar áður en hann samdi við Lyngby í Danmörku. „Hann æfði með okkur þá og þá var samtal um að hann kæmi til okkar, við héldum svo góðu sambandi við þá feðga. Við settum síðan allt á fullt fyrir nokkru síðan og það gekk í raun hratt fyrir sig. Þetta fór svo á flug þegar hann mætti í æfingaferðina með okkur.“
Gylfi æfir nú með Val á Spáni en Börkur á von á því að aðsókn á leiki Vals aukist með komu Gylfa. „Ég á von á aukinni aðsókn á Hlíðarenda í sumar, áhugafólk um fótbolta mun mæta á leiki okkar til að sjá goðsögnina og þessa fyrirmynd spila. Umfjöllunin verður mikil, ég held að þetta sé gott fyrir íslenskan fótboltan og lyfti öllu upp.“
Víkingur og KR höfðu áhuga á að semja vð Gylf en Börkur vill lítið ræða það. „Ég ætla ekkert að tjá mig um það, hvað aðrir eða við höfðum fram að færa. Þetta er góður samningur fyrir Val og GYlfa, hann velur Val út frá þeim forsendum sem við höfum að bjóða. Við höfum byggt upp frábæra umgjör í félaginu, fyrir allar deildir. Við erum með eina bestu umgjörð landsins og það er hrós til okkar að svona leikmaður velji okkur út frá því.“