Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis segir að það hafi verið magnað að æfa með Gylfa Þór Sigurðssyni á Spáni í síðustu viku. Gylfi æfði með Fylki áður en hann hélt til Vals og samdi við liðið.
Gylfi skrifaði undir samning við Val í gær og félagið staðfesti komu hans í gær.
„Það er bara mjög gott, við vorum tvisvar saman í liði. Hann leit fáránlega vel út, tók fjórar æfingar með okkur,“ segir Ragnar Bragi í hlaðvarpsþættinum, Gula Spjaldið.
Þrátt fyrir að hafa fylgst með Gylfa í mörg ár þá kom það Ragnari á óvart hversu góður Gylfi er. „Það kom mér á óvart hversu ógeðslega góður hann er í fótbolta, fórum í skotæfingu og ég hef aldrei séð svona.“
Ragnar segir að Gylfi Þór hafi fengið þær fréttir þegar hann var að æfa með Fylki að hann yrði ekki í landsliðshópnum sem verður kynntur á morgun. Hann segir að þá hafi Gylfi farið að endurhugsa hlutina.
„Honum vantar spilform, hann lendir í því þegar hann er að æfa með okkur kemur í ljós að hann er ekki í landsliðshópnum. Hann sagði sjálfur að þá ætlaði hann að endurhugsa hlutina, hvað hann ætli að gera.“
„Hann ætlaði að nýta ferðina með okkur og Val til að koma á góðu skriði inn í landsleikina og skoða svo hvaða skref hann tæki.“
Ragnar Bragi segir að Gylfi hafi komið sér vel fyrir sjónir. „Hann var miklu léttari en ég hélt sem náungi, hann var í góðu formi og tók þátt í öllu nema á fyrstu æfingunni. Valur er að fá geðveikan leikmann.“
„Maður öfundar leikmennina í Val að fá að æfa með honum, svona kalíber lyftir öllu.“