Barnett, sem var 62 ára, starfaði hjá Boeing í 32 ár uns hann hætti árið 2017. Eftir að hann hætti lýsti hann miklum áhyggjum af öryggi Boeing-flugvéla og sagðist meðal annars hafa biðlað til aðstandenda sinna að setjast ekki upp í slíkar flugvélar.
Hjá Boeing starfaði Barnett meðal annars sem gæðastjóri í verksmiðju fyrirtækisins í North Charleston þar sem 787 Dreamliner flugvélarnar voru meðal annars framleiddar.
Hann steig fram árið 2019 og lýsti yfir miklum efasemdum um öryggi 787-þotunnar. Benti hann til dæmis á að súrefniskerfi vélarinnar væri gallað og stjórnendum Boeing hefði verið bent á það. Í stað þess að leysa vandann hefði framleiðslan haldið áfram. Sagði hann gallann geta leitt til súrefnisskorts í farþegarými vélarinnar með tilheyrandi hörmungum.
Skömmu áður en Barnett fannst látinn hafði hann borið vitni í dómsmáli sem hann höfðaði gegn flugvélaframleiðandanum.
Robert Turkewitz, annar tveggja lögmanna Barnetts, segir við New York Post að nauðsynlegt sé að fá frekari upplýsingar um andlátið. Vill hann að það verði rannsakað í þaula.
„Við gátum ekki séð nein merki þess að hann ætlaði að svipta sig lífi. Við trúum þessu ekki,“ segir hann og bætir við að Barnett hafi verið sjálfum sér líkur áður en hann lést, í góðu skapi og fullur tilhlökkunar vegna dómsmálsins.
—
Í þessari frétt er fjallað um sjálfsvíg. Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.