Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greinir frá því í færslu á Facebook-síðu sinni fyrr í morgun að maður hennar Gunnar Sigvaldason eigi afmæli í dag. Hún segir að í ár séu 20 ár síðan þau kynntust. Katrín og Gunnar eiga þrjá syni saman. Katrín segir að þau hafi almennt haft það gott saman en einskær gleði hafi þó ekki alltaf verið við völd í sambandi þeirra. Þau vegi þó hvort annað upp:
„Við höfum tekist á síðan um stórt og smátt en almennt höfum við það nokkuð gott saman. Þetta er samt ekki tóm gleði og viðhorf okkar eru vægast sagt ólík til ýmissa hluta.“
Katrín segir að hún og Gunnar hafi mismunandi hæfileika meðal annars þegur kemur að ratvísi. Í ferðum erlendis sé það Gunnar sem rati betur:
„Hann er til dæmis borgarmaður sem ratar hvar sem hann kemur í útlöndum á meðan ég geng um með hausinn grafinn ofan í pappírskort (sem honum finnst mjög mikil 20. öld) og er algjörlega áttavillt.“
Dæmið snúist hins vegar við þegar komi að því að rata í ferðum innanlands:
„Hér heima snýst taflið við þar sem ég er jafn áttavillt en hef lagt flest veganúmer á minnið á mörgum ferðum. Man eftir einu sumarfríi þar sem ég var að tala við Þórólf sóttvarnalækni í síma (og var með hugann algjörlega við símtalið) og minn maður keyrði langleiðina niður í Fjarðabyggð þegar leiðin lá á Borgarfjörð eystri. En þetta heitir að vega hvort annað upp!“