Sigurbjörg steig fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi og kvaðst óttast um líf sitt vegna samskipta við leigusala sinn.
Leigusalinn umræddi er lögfræðingurinn Árni Stefán Árnason en í frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi kom fram að hún hefði tekið húsnæðið á leigu og skuldbundið sig til að greiða 200 þúsund krónur á mánuði gegn því að leigusalinn kæmi eigninni í mannsæmandi horf. Hún hafi staðið við sitt en leigusalinn ekki. Hann hafi til dæmis lofað henni afnot af eldavél en ekki staðið við það.
Á myndum mátti sjá gat á gólfi á svefnherbergi, rafmagnsvírar standa út í loft og þá er eldhúsinnréttingin gömul hurð sem búið er að saga í gat fyrir vask sem ekki er búið að festa.
Árni Stefán segir í viðtali sem birtist á vef Vísis í morgun að hann hafi aldrei auglýst húsnæðið sem leiguhúsnæði enda er það ekki hæft í langtímaleigu. Þegar atburðirnir á Reykjanesskaga stóðu sem hæst og Grindvíkingar þurftu að flytja hafi hann auglýst húsnæðið til tímabundinna afnota.
Sigurbjörg hafi sótt það fast að fá að búa þarna þar sem hún hafi verið að missa húsnæði sitt í Hveragerði. Hún þyrfti að komast í húsnæði ella eiga á hættu að enda á götunni. Hann hafi í raun séð aumur á henni en hún vitað nákvæmlega í hvaða ástandi húsið var.
Árni segir við Vísi að hann sjái sér ekki annað fært en að segja leigusamningnum upp úr því sem komið er. „Þetta er ærumeiðandi fyrir mig, og bara lygi í henni. Þetta hefur aldrei verið auglýst til leigu, um það snýst málið.“
Hér má sjá frétt Vísis í morgun.
Hér má sjá umfjöllun Stöðvar 2 í gærkvöldi um málið.