Sergio Conceicao, stjóri Porto, sakaði Mikel Arteta, stjóra Arsenal, um að tala illa um fjölskyldu sína í leik liðanna í gær.
Liðin mættust í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og hafði Arsenal betur eftir vítaspyrnukeppni. Mikill hiti var í leiknum og eftir hann.
„Arteta sneri sér að bekknum í leiknum og móðgaði fjölskyldu mína á spænsku. Ég sagði honum að manneskjan sem hann væri að tala illa um væri ekki lengur á meðal okkar,“ sagði Conceicao eftir leik.
„Hann þarf bara að hafa áhyggjur af sínu liði sem hefur nóg af hæfileikum til að spila mun betur.“
Blaðamaðurinn Fabrizio Romano greindi frá því í gærkvöldi að innan Arsenal hafni menn þessum ásökunum.