Það fer tvennum sögum af því hvort Barcelona sé á eftir Mason Greenwood, leikmanni Getafe á láni frá Manchester United. Spænska blaðið Marca segir fulltrúa enska félagsins hafa rætt við Börsunga.
Englendingurinn ungi er á láni hjá Getafe frá Manchester United og hefur hann staðið sig ansi vel á Spáni. Talað hefur verið um að það hafi vakið áhuga stærri liða og Börsungar einna helst nefndir til sögunnar.
Fyrr í dag sagði Fabrizio Romano frá því að Baracelona væri ekki að reyna að fá Greenwood en miðað við frétt Marca er Katalóníufélagið svo sannarlega að því.
Blaðið hefur því fram að fulltrúar United hafi fundað með Deco, yfirmanni íþróttamála hjá Barcelona og rætt hugsaneg skipti Greenwood.
Þó eru fleiri félög sem hafa áhuga. Má þarf nefna Atletico Madrid og núverandi félag Greenwood, Getafe. Þá er ónefnt félag í Sádi-Arabíu áhugasamt.
United er sagt vilja 43 milljónir punda fyrir Greenwood. Sjálfur vill leikmaðurinn helst spila í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð, en er þó ansi sáttur hjá Getafe.
Þrátt fyrir að eiga rúmt ár eftir af samningi sínum við United vill félagið losna við Greenwood vegna mála hans utan vallar. Hann var handtekinn snemma árs 2022 og grunaður um gróft ofbeldi í nánu sambandi. Eftir rúmt ár í rannsókn var málið látið niður falla.