Kærustupar krafði íslenska ríkið um skaðabætur eftir handtöku sem átti sér stað árið 2018 á bílastæði við Smáralindina. Þetta kemur fram í dómum sem féllu þann 22. febrúar í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Lögreglu barst tilkynning um slagsmál í Smáralind, en þar væru fjórir aðilar í átökum og einn vopnaðir öxi. Lögregla handtók í kjölfarið parið og við leit í bakpoka mannsins fundust tvær axir.
Konan sagði í stefnu að hún hafi verið handtekinn fyrir framan fullt af fólki og sögð grunuð um líkamsárás og vopnalagabrot. Raunin væri þó sú að hún var þolandi árásar. Eftir handtökuna fékk hún að dúsa í tæpan sólarhring sem hún taldi mun lengra en efni stóðu til. Hún sagði átökin hefðu komið til vegna fíkniefndaskuldar. Parið hafi skuldað frænda konunnar fé og hann ráðist að þeim, og sagðist vopnaður. Hún dró þá upp öxi sem hún var með á sér, til að sýna frænda sínum, bara til að hræða hann. Hún hvorki sveiflaði öxinni né beitti henni.
Framburður konunnar fékk stoð í upptökum eftirlitsmyndavéla. Aðspurð hvers vegna hún og kærasti hennar væru með tvær axir í tösku, svaraði konan því til að parið hafi verið á leið upp í bústað. Málið var svo fellt niður vorið 2019.
Íslenska ríkið mótmæli því að handtakan hafi verið ólögmæt. Uppi hafi verið rökstuddur grunur um að konan væri sek um líkamsárás og vopnalagabrot, enda hafi hún svo játað að hafa tekið upp öxi í átökum til að hræða frænda sinn. Frændinn hafi brugðist við með því að forða sér, sem bendi til þess að honum hafi fundist sér ógnað. Konan hafi þá gengið eftir frænda sínum sem sýni að henni hafi að sama bragði ekki fundist sér ógnað.
Konan hafi eins lýst því að hún hefði verið skölluð og kýld í andlitið svo báðar varir hennar sprungu. Hún hafi þó ekki haft sjáanlega áverka við handtöku. Þetta dragi úr trúverðugleika. Handtaka hafi staðið í tæpar 19 klukkustundir en á þeim tíma þurfti lögregla að taka skýrslu af fjórum aðilum málsins sem og vitnum. Eins þurfti að kalla eftir upptökum eftirlitsmyndavéla. Afstaða ríkisins var svo sú að konan hefði sjálf stuðlað að handtöku sinni með því að taka öxina upp í Smáralind. Dómari féllst á málsvörn ríkisins og sýknaði það af bótakröfu parsins.
Fram kom undir rekstri máls að maðurinn kærði lögreglumenn þá sem handtóku hann fyrir meint harðræði við handtöku. Það mál var fellt niður eftir rannsókn.