Michael Edwards hefur samþykkt að koma til starfa hjá FSG sem eru eigendur Liverpool og mun hann sjá um öll málefni tengd fótbolta fyrir félagið.
Edwards hafði fyrr í vetur hafnað tilboði félagsins, en tvö ár eru síðan að Edwards sagði upp sem yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu.
Eigendur Liverpool töldu afar mikilvægt að fá Edwards til félagsins nú þegar Jurgen Klopp hoppar frá borði í sumar.
Fundarhöld hafa staðið yfir í Boston síðustu daga og í gærkvöldi samþykkti Edwards að taka yfir knattspyrnumálin.
Hann vill ekki vera yfirmaður knattspyrnumála en mun stýra öllu og ætlar félagið að ráða annan mann inn í starf yfirmanns knattspyrnumála.