Morgunblaðið skýrir frá andláti hans í dag.
Matthías varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1950 og lauk kandídatsprófi í íslenskum fræðum, með bókmenntir sem aðalgrein, frá Háskóla Íslands.
Hann hóf störf hjá Morgunblaðinu 1951, samhliða námi, en þá var hann 21 árs. Hann var ráðinn ritstjóri blaðsins 1959, aðeins 29 ára. Þar tók hann við ritstjórastöðu við hlið Valtýs Stefánssonar, dr. Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Bjarnasonar frá Vigur. Síðar starfaði hann með Eyjólfi Konráð Jónssyni og Styrmi Gunnarssyni.
Auk þess að sinna ritstjórn sinnti Matthías skáldskap og skilur hann eftir sig tugi bóka, ljóðabóka, leikrita, ritgerða, viðtalsbóka og ævisagna. Þrjár bóka hans voru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Hann hélt ritstörfum áfram eftir að hann lét af störfum sem ritstjóri og hafði margt fram að færa í þjóðmálaumræðunni.
Hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum, var til dæmis í stjórn Hins íslenska bókmenntafélags, innan Sjálfstæðisflokksins, Stúdentaráðs HÍ og Blaðamannafélagsins.