Íslenskt knattspyrnuáhugafólk bíður og vonar að Gylfi Þór Sigurðsson verði leikmaður í Bestu deild karla á næstu dögum eða vikum.
Valur er í viðræðum við Gylfa um að semja við liðið en hann æfir nú með félaginu á Spáni.
Gylfi samdi við Lyngby síðasta haust en rifti samningi sínum í upphafi árs, hann er að jafna sig eftir meiðsli þessa dagana og skoðar stöðuna.
Ljóst er að koma Gylfa Þórs í Bestu deildina yrðu stærstu fréttir í sögu efstu deildar á Íslandi.
Eftir magnaðan feril með félagsliði og landsliði gæti Gylfi komið heim og spilað í efstu deild. Í huga flestra er Gylfi besti landsliðsmaður í sögu Íslands og átti hann stærstan þátt í því að koma landsliðinu inn á EM 2016 og HM 2018.
Gylfi æfði með Val síðasta sumar og virðist fátt annað benda til þess en að hann semji við Val, ákveði hann að spila á Íslandi.
Við skoðuðum hvaða önnur nöfn hafa komið í efstu deild á Íslandi sem gætu flokkast undir stórar heimkomur.
Hannes Þór Halldórsson í Val – 2019
Nokkrum mánuðum eftir að hafa varið víti frá Lionel Messi mætti Hannes heim og samdi við Val, mikil eftirvænting var eftir komu hans enda var Hannes besti markvörður Íslands á þessum tíma
Lee Sharpe í Grindavík – 2003
Frá Manchester United til Grindavíkur, þetta voru heimsfréttir en Sharpe stóð ekki alveg undir væntingum á vellinum en þótti skemmtilegur utan vallar
Aron Jóhannsson í Val – 2022
Eftir feril í þýsku úrvalsdeildinin og fleiri löndum mætti Aron heim á besta aldri og er enn i fullu fjöri með Val.
James Hurst í Val – 2013
Hafði áður spilað með ÍBV en þegar hann kom til Vals hafði Hurst spilað í ensku úrvalsdeildinin, var hins vegar vandræðagemsi og hefur verið á flakki allan sinn feril.
Guðni Bergsson í Val – 1994
Mætti heim til Vals á láni frá Tottenham eftir fullt af leikjum í efstu deild á Englandi.
David James í ÍBV – 2013
Fyrrum landsliðsmarkvörður Englands til ÍBV, þetta voru fréttir sem fóru út um allan heim en Hermann Hreiðarsson var þá þjálfari Eyjamanna.
Rúnar Kristinsson Í KR – 2007
Leikjahæsti landsliðsmaður í sögu Íslands ákvað að klára ferilinn heima, stóð ekki undir væntingum en var stórt nafn
Arnar Grétarsson í Breiðablik – 2006
Mætti heim í Kópavoginn eftir mjög farsælan feril, kom með fyrsta bikarinn í Kópavoginn í karlaflokki þegar Breiðablik varð bikarmeistari árið 2009.
Eiður Smári Guðjohnsen í KR – 1998
Eftir erfið meiðsli mætti Eiður heim, spilaði örfáa leiki en taktarnir voru til staðar. Fékk samning í Bolton og átti eftir það sturlaðan feril.
Arnór Guðjohnsen í Val – 1998
Mætti heim í lok ferilsins, hafði misst hraða en gæðin í skónum voru slík að fólk fékk oft gæsahúð við að horfa á Arnór spila.
Þorvaldur Örlygsson í Fram – 1991
Mætti heim til Fram í stutta stund eftir mjög farsæla dvöl hjá Nottingham Forest í efstu deild Englands, Formaður KSÍ í dag var harður í horn að taka.
Arnar Gunnlaugsson í ÍA – 1995
Mætti heim eftir dvöl í Hollandi, skoraði 15 mörk í 7 leikjum og varð Íslandsmeistari með sínu uppeldisfélagi.