Það er ansi sennilegt að landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson muni spila með uppeldisfélagi sínu, Þór, áður en leikmannaferlinum lýkur. Hvenær það verður á þó eftir að koma í ljós.
Í kjölfar sögusagna um að Aron væri að koma heim í Þór í sumar blés hann sjálfur á þær á samfélagsmiðlum og sagði að svo yrði ekki alveg strax. Þetta var tekið fyrir í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardag.
„Aron Einar er að styrkja Þór. Það stendur AK Pure Skin (snyrtivöruverslun í eigu Arons og eiginkonu hans Kristbjargar Jónasdóttur) framan á treyjunni,“ sagði Baldvin Már Borgarsson í þættinum.
„Hann fór á fund með Sigga Höskulds (þjálfara Þórs) áður en hann var ráðinn,“ skaut Elvar Geir Magnússon inn í.
Baldvin telur að Aron sé að reyna að lyfta Þór upp á bak við tjöldin áður en hann mætir sjálfur á svæðið.
„Mig grunar að Aron sé að reyna að ýta liðinu upp, þess vegna kemur til dæmis Birkir Heimis, til að Aron komi í Bestu deildina 2025. Ég hugsa að hausinn á honum sé þar,“ sagði hann, en Þór spilar í Lengjudeildinni og vonast til að komast upp í deild þeirra bestu í sumar.
Aron er sem stendur á mála hjá Al-Arabi í Katar. Hann hefur ekkert spilað undanfarið vegna meiðsla.