Brahim Diaz, leikmaður Real Madrid, hefur ákveðið að spila fyrir landslið Marokkó fremur en það spænska. Þetta kemur fram í spænska miðlunum Marca.
Hinn 24 ára gamli Diaz er fæddur og uppalinn á Spáni en getur valið að spila fyrir Marokkó þar sem afi hans fæddist þar.
Diaz hefur spilað einn A-landsleik fyrir Spán. Þá skoraði hann í 4-0 sigri á Litháen í vináttuleik en sóknarmaðurinn hefur ekki fengið sénsinn síðan.
Nú aðeins þremur mánuðum fyrir EM í Þýskalandi er Diaz sagður hafa valið að spila fyrir Marokkó. Hann gæti komið við sögu með landsliðinu 22. mars næstkomandi þegar liðið leikur við Angóla í vináttuleik.
Marokkó hefur lagt mikinn metnað í að sannfæra Diaz um að spila fyrir sig og á það stóran þátt í ákvörðun leikmannsins.
Diaz átti frábært tímabil á láni hjá AC Milan í fyrra og hefur einnig staðið sig vel í liði Real Madrid á þessari leiktíð, þrátt fyrir að hafa aðallega verið að koma inn af bekknum.