Ásta segir að Krónan hafi reynt að losna út úr samningu við Wok On en veitingahúsakeðjan rak þrjá staði í verslunum Krónunnar. Lögregla réðst í umfangsmiklar aðgerðir í síðustu viku vegna gruns um peningaþvætti, mansal og skipulagða brotastarfsemi.
Ásta segir að Krónan hafi sagt upp samningum við Wok On í nóvember í fyrra og síðan þá hafi fyrirtækið reynt að koma sér út úir samstarfinu. Af lagalegum ástæðum hafi það reynst erfitt því Krónan þá verið bótaskyld.
Ásta bendir á að Krónan hafi ekki fengið skýrslur Heilbrigðiseftirlitsins til sín en í þeim fékk Wok On lága einkunn.
„Við tökum þessu mjög alvarlega og erum að endurskoða allar þær kröfur og upplýsingagjöf sem við notum til þessara sjálfstæðu veitingarýma í verslunum Krónunnar sem og annars staðar hjá okkur,“ segir hún við Morgunblaðið.
Hún segir að starfsfólki Krónunnar sé brugðið eftir aðgerðir lögreglu. Um sé að ræða hörmulegt mál.
„Ef rétt reynist, og að um mansal og fleira hafi verið að ræða, reynir á staðlað ákvæði í samningum okkar sem við trúðum að aldrei myndi reyna á. Allir samningar okkar kveða skýrt á um vernd alþjóðlegra mannréttinda og að vinna gegn hvers kyns nauðungar- eða þrælkunarvinnu. Við riftum samningnum strax í kjölfar þess að aðgerðirnar fóru fram, þó svo að auðvitað hefðum við viljað slíta þeim strax í nóvember.“