Um fjögur þúsund manns hafa skrifað undir undirskriftalista í Bretlandi þess efnis að þrettán ára börn geti fengið ökuréttindi. Yrði þetta að lögum yrðu breskir ökuþórar þeir yngstu í heimi.
Rétt eins á Íslandi geta Bretar fengið ökuréttindi 17 ára gamlir. Einnig geta þeir hafið æfingaakstur þegar þeir eru 15 ára og 9 mánaða gamlir.
Lægsti aldurinn til þess að fá ökuréttindi er í dag 15 ára, sums staðar í Bandaríkjunum og Kanada, Ástralíu, Kólumbíu og nokkrum löndum Ameríku og Afríku. Hvergi í Evrópu er hann lægri en 16 ára.
Undirskriftalistinn verður í gangi þar til 2. apríl. Ef hann nær tíu þúsund undirskriftum ber breskum yfirvöldum að bregðast við honum.
„Ég vill að ríkisstjórnin breyti lágmarksaldri ökuréttinda niður í 13 ára af því að ég tel að unglingar séu fullfærir um að keyra bíl og ættu að geta fengið réttindin,“ segir Yusuf Marcu, sem hóf söfnunina.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem reynt er að hrófla við lágmarksaldrinum í Bretlandi. Í fyrra skrifuðu 95 þúsund manns undir lista til að reyna að fá aldurinn lækkaðan niður í 15 ár. Breska ríkisstjórnin hafnaði því og benti á að yngstu ökumennirnir væru þeir sem væru í mestri hættu á að valda dauðaslysum í umferðinni.